Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi var haldinn í Safnaðarheimilinu Reyðarfirði sl. fimmtudag. Fundurinn var ágætlega sóttur, á þriðja tug félagsmanna mætti.
Það bar helst til tíðinda á fundinum að Gunnar Hjaltason sem verið hefur formaður félagsins sl. 10 ár baðst undan endurkjöri. Nýr formaður var kosinn Ólafur Hallgrímsson Borgarfirði eystra.
Í stuttu ávarpi í lok fundar þakkaði Árni Jón Sigurðsson Seyðisfirði Gunnari fyrir mjög gott starf í þágu félagsins og smábátaútgerðarinnar. Fundarmenn tóku undir með kröftugu lófataki.
Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktanir:
1. Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi veitir LS umboð til vinna að kjarasamningum um laun og kjör á smábátum fyrir hönd félagsmanna sinna.
2. Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi beinir því til LS að fylgst verði vel með gerð frumvarps um mönnun fiskiskipa og gæti réttinda félagsmanna sinna. Einkum er lítur að skipstjórnar- og vélgæsluréttindum. Öllum hugmyndum um skerðingu réttinda er harðlega mótmælt svo sem að þau miðist við 12 m, þau mörk verða að miðast við 15 m.
3. Félag smábátaeigenda á Austurlandi beinir því til aðalfundar LS að mótmæla harðlega öllum framkomnum hugmyndum um breytingar á slægingarstuðlum svo og reglugerð um vigtun sjávarafla sem á að taka gildi 1. mars 2007.
4. Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi lýsir ánægju sinni með að búið sé að dusta rykið af einu af hvalveiðiskipum Hvals hf. Fundurinn hvetur sjávarútvegsráðherra til að standa við fyrri yfirlýsingar sínar um nauðsyn veiða á stórhvelum og heimila veiðar nú þegar.
5. Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi beinir þeirri tillögu til aðalfundar LS að hann beiti sér fyrir því að gerð verði breyting á lögum um fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 7-19-79, 7-19-127 þar sem skipum samkvæmt flokki 2 og 3 (skip lengri en 29 m en styttri en 42 m með aflvísi lægri en 2500 og skip styttri en 29 m með lægri aflvísi en 1600) eru heimilaðar veiðar „Allt árið utan línu sem dregin er 6 sjómílur utan viðmiðunarlínu milli lína réttvísandi norðaustur frá Langanesi (vms 10) og réttvísandi austur frá Glettinganesi (vms 13. 5-30-65N 3-36-13V)”.
Í stað „réttvísandi austur frá Glettinganesi” komi réttvísandi austur frá Ósafles 5-37-65N 6-54-13V en áfram verði miðað við viðmiðunarlínu milli vms 10 og 13 (12 sml. frá þeim punkt sem línurnar skerast).
Greinargerð: Svæðið sem um ræðir hefur verið stundað af ísfiskskipum á undanförnum áratugum og hefur verið sæmileg sátt á milli veiðarfæra, sem nú er orðin veruleg breyting á. Að undanförnu hafa skipstjórnarmenn togskipa hótað að draga trollið yfir þá línu sem lögð verði á svæðið. Af þeim sökum sér Félag smábátaeigenda á Austurlandi sig knúið til að fara fram á að viðmiðunarlínan verði færð norðar.
6. Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi vill að LS beiti sér fyrir áframhaldandi rekstri NMT farsímakerfisins, þar til upp er komið símkerfi með viðlíka útbreiðslu og öryggi.
Ekki er neitt fast í hendi hvaða kerfi komi til með að leysa NMT af hólmi og alls ekki hvað útbreiðslu né áreiðanleika varðar. T.d. var NMT síminn eina fjarskiptatækið sem virkaði til samskipta við báta í bilun á ljósleiðarakerfi Landsímans á dögunum.
7. Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi gerir þá kröfu að veiðar stórra og afkastamikilla skipa verði stöðvaðar innan 6 sml. frá grunnlínupunktum, miðað skal við skip yfir 100 brl.
Greinargerð: Það eru staðbundnir fiskistofnar í fjörðum og flóum og hætta er á að þeir verði ofveiddir með stórvirkum veiðarfærum. Nú í haust eru dæmi þess að 200 til 750 tonna línuskip veiði inni á fjörðum dögum saman.
Í stjórn Félags smábátaeigenda á Austurlandi hlutu eftirtaldir kosningu:
Aðalmenn:
Ólafur Hallgrímsson Borgarfirði eystra formaður
Guðni Ársælsson Stöðvarfirði gjaldkeri
Ívar Björgvinsson Djúpavogi ritari
Kári Ásgrímsson Borgarfirði eystra
Kristinn Hjartarson Neskaupstað
Til vara
Árni Jón Sigurðsson Seyðisfirði
Jóhann Þórisson Djúpavogi
Myndir:
Ólafur tekur við formennsku úr hendi Gunnars
Árni Jón Sigurðsson
Hluti fundarmanna