Sl. fimmtudag birtist í Fiskifréttum eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason:
„Nú eru 23 ár síðan Landssamband smábátaeigenda (LS) hóf að benda á þá staðreynd að smábátar eyddu mun minna af aflaverðmæti til olíukaupa en t.d. ísfiskstogarar. Þessum ábendingum var harla fálega tekið – svo ekki sé fastar að orði kveðið. Reyndar var það svo að forsvarsmönnum stórútgerðarinnar fannst full ástæða til að draga dár af þessum málflutningi og sögðu LS vilja hverfa á ný til ára og segla.
Í dag naga þessir snillingar neglurnar, horfandi á olíureikningana.
Niðurstaða Sjávarútvegsstofnunar Háskóla Íslands
Árið 1992 vann Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, undir forystu Ragnars Árnasonar prófessors, verkefni fyrir Landssamband smábátaeigenda (LS) sem laut að því að reikna rekstrarafkomu smábátaflotans fyrir árið 1989. Ástæða þess að LS keypti þetta verkefni af háskólanum var að erfiðlega gekk að fá Þjóðhagsstofnun til þess arna. Sú stofnun hafði samviskusamlega reiknað afkomu fiskiskipaflotans í árafjöld – nema fyrir smábátaflotann. Beiðnum LS til Þjóðhagsstofnunar var svarað á þá lund að slíkir útreikningar væru „alltof flóknir’.
Sjávarútvegsstofnun HÍ var hins vegar ekkert í vandræðum með þessa „flóknu “ útreikninga. Hún skilaði verkefninu með pompi og prakt í nóvember 1992, með undirskrift Ragnars Árnasonar prófessors. Þar kom m.a. fram að smábátaflotinn eyddi að meðaltali 3,8% af tekjum til olíukaupa á sama tíma og ísfiskstogarar eyddu 8,7% til hins sama. Tekið skal fram, að úrtakið sem valið var til útreikninga var þverskurður af þeim smábátaflota sem þá var við fiskveiðar, hvort sem það voru menn sem reru allt árið eða aðeins hluta úr sumri, mest sér til gamans.
Þegar LS kynnti niðurstöðurnar var því líkast að gáttir helvítis brystu.
Talsmenn stórútgerðarinnar voru sem mý á mykjuskán í öllum fjölmiðlum og drógu á ný upp aulabrandarann um árarnar og seglin. Hversu furðulega sem það hljómar, þá mætti sá sem undirritaði skýrsluna í útvarpsviðtal með þessum húmoristum þar sem hann gerði enga athugasemd við hlátrasköllin.
63 millilítrar af olíu á hvert fiskkíló
Árið 2001 skrifaði Baldur Smári Hermannsson kandídatsritgerð í Háskóla Íslands, viðskipta- og hagfræðideild, undir heitinu „Smábátaútgerð frá Vestfjörðum“. Í ritgerðinni rekur hann af mikilli nákvæmni alla helstu þætti í tekjum og útgjöldum 16 smábáta sem gerðu út frá Vestfjörðum á árunum
1998 og 1999. Allir þessir bátar voru í fullum rekstri, ólíkt því sem var í 1989 úttektinni.
Niðurstöðurnar í skýrslu Baldurs varðandi olíukostnað hafa aldrei verið jafn athyglisverðar, í ljósi verðþróunar á olíu. Á þessum tveimur árum veiddu bátarnir samtals 4500 tonn af fiski og eyddu til þess 283 tonnum af olíu. Þetta þýðir að einungis 63 millilítrum (3-0-0 lítrum) af olíu var eytt á hvert kg af fiski.
Í maí 2003 gáfu Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Iðntæknistofnun út skýrslu, ‘ Vistferilgreining á þorskafurðum’, þar sem reynt var að komast sem næst því hvað iðnaðartogarar eyddu við veiðarnar. Niðurstaðan var sú að þeir eyddu 0.65 lítrum af olíu á hvert kg af fiski.
Staðan í dag
Um hvítasunnuhelgina hafði ég samband við nokkra félagsmenn um þessi mál.
Tölurnar eru misjafnar, eða á bilinu 3 – 7% af aflaverðmæti til olíukaupa á síðasta ári – og fram í árið 2008. Það er nokkur hækkun frá árinu 2004, en samkvæmt opinberum tölum frá Hagstofu Íslands eyddu ísfisktogarar 16,3% af aflaverðmæti í olíu árið 2004 en smábátarnir 2,8%.
Þetta ár var verðið á olíufatinu um 40 bandaríkjadalir. Sem þetta er ritað kostar olíufatið um 124 bandaríkjadali.
Er þetta ekki löngu hætt að vera fyndið?’