Þorskurinn kominn aftur við Nýfundnaland?

Hinn 2. júlí 1992 boðaði þáverandi sjávarútvegsráðherra Nýfundnalands, John Crosbie, allsherjarbann við þorskveiðum við austurströnd Kanada. Síðan hefur á ýmsu gengið, en sjávarútvegurinn á svæðinu hefur af þrautseigju reynt að aðlaga sig þessum gjörbreyttu aðstæðum. Það tókst honum svo sannarlega, fyrir fáeinum árum slóu Nýfundnalendingar öll sín fyrri met í útflutningsverðmæti sjávarafurða.

Þorskveiðibannið hefur haft önnur áhrif: óteljandi sérfræðingar, bæði sjálfskipaðir sem aðrir, hafa verið með endalausar tilgátur og kenningar hvers vegna fór sem fór og þeir eru ófáir sem hafa spáð því afdráttarlaust að þorskstofnarnir á svæðinu séu horfnir að eilífu.

Eitthvað hefur þetta farið fram hjá þorskunum sjálfum. Í símtali við einn af forsvarsmönum sjómanna á Nýfundnalandi í dag komu fram upplýsingar sem a.m.k. benda til þess. Hann var ekkert að skafa af hlutunum: „það er þorskur út um allt – inní fjörðum og flóum og útí hafsauga. Fiskurinn er af öllum stærðum og hann er vel á sig kominn. Veiðimenn eru jafnvel að fá þorsk á stöðum sem þeir hafa aldrei vitað til að þorskur héldi sig á. Það er mikið æti á svæðinu, t.d. loðna, og veiðimenn segjast ekki hafa séð annað eins líf til áratuga’.

Mynd: Boltaþorskur upp við strönd Nýfundnalands
codresized.jpg