Um síðustu helgi fóru tveir smábátar til makrílveiða inn á Berufjörð. Veiðin gekk vel, óhemja af makríl í firðinum. Það vakti athygli fiskimannanna hversu úttroðinn fiskurinn var af æti. Því var tekið til við að slægja umtalsvert magn og magainnihaldið, sem var loðnuseiði, u.þ.b. 2 sm löng, mæld og vegin.
Niðurstaðan var sú að 20-25 grömm af þessum örsmáu loðnuseiðum var að meðaltali í maga hvers makríls. Það þarf hvorki fjörugt ímyndunarafl né mikla reiknihæfileika til að átta sig á því hverskonar ryksugur makríltorfurnar eru við slíkar aðstæður. Besta samlíkingin er hugsanlega engisprettufaraldur.
Síðast í dag bárust hótanir í garð Íslendinga vegna makrílveiða við landið. Séu þeir hinir sömu svo sannfærðir um réttleysi Íslendinga til þessara veiða – þrátt fyrir að fiskurinn hrygni orðið og fiti sig innan lögsögunnar, hljóta þeir að vera tilbúnir í að greiða „beitargjald“ sem er löngu þekkt hérlendis sem víðar, varðandi t.d. hesta, kindur og búfénað almennt.
Í sumar var farinn sameiginlegur rannsóknaleiðangur Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga á tímabilinu 9. júlí – 20. ágúst í kringum Ísland, Færeyjar og í Norskahafinu. Á vef Hafrannsóknastofnunarinnar er varlega til orða tekið, þ.e. að vísbendingar séu um að 4-5 milljónir tonna af makríl hafi verið á svæðinu, þar af um 650 þúsund tonn á svæðinu sem Árni Friðriksson fór um innan íslensku lögsögunnar. Eftir því sem best er vitað var ekki búið að leiðrétta fyrir því að Árni Friðriksson var með mun minna troll en hin rannsóknaskipin.
Sé miðað við heildarmagnið er ljóst að veiðar Íslendinga upp á rúm 100 þúsund tonn eru á bilinu 2-3% af því magni sem áætlað var á svæðinu.
Það hlýtur að teljast aðdáunarverð umhyggja fyrir makrílstofninum að allt sé á hvolfi hjá forsvarsmönnum fiskveiðimála innan Evrópusambandsins vegna þessa. Ekki er síður aðdáunarvert að þeir aðilar sem nú sæta ákærum og jafnvel milljarðasektum vegna stórfelldra brota þeirra við löndun fram hjá vigt af þessari sömu tegund skulu fullir vandlætingar í garð Íslendinga í málinu.
Ótti við réttindamissi óþarfur