Fréttir dagsins um að bandarísk stjórnvöld hafi ákveðið að björgunarþyrlur hersins verði fluttar á brott fyrir lok september nk. gefur tilefni til að rifja upp eftirfarandi samþykkt stjórnar LS frá 10. júlí 2003:
„Fundur stjórnar Landssambands smábátaeigenda haldinn í Færeyjum 10. júlí 2003 beinir því til stjórnvalda að fresta öllum ákvörðunum um smíði varðskips, en þess í stað að einbeita sér að því að efla þyrlukost Landhelgisgæslunnar með kaupum á nýrri þyrlu. Í ljósi þeirrar óvissu sem nú ríkir í samstarfi Landhelgisgæslunnar og varnarliðsins ber að hraða þessari vinnu eins mikið og kostur er.“
Framkvæmdastjóri LS, Örn Pálsson, minnti aftur á málefnið á aðalfundi félagsins 15. október 2004. Hann rifjaði þar upp samþykkt stjórnarinnar og sagði svo:
„Ég sé ástæðu til að vinna áfram með þessa samþykkt. Óvissa er um veru þyrlusveitar varnarliðsins og mitt mat er að við eigum ekki að treysta algjörlega á veru hennar hér. Mín skoðun er sú að stjórnvöld hefji nú þegar viðræður við granna okkar Færeyinga, Dani, Norðmenn, Hjaltlendinga og Grænlendinga um stofnun sameiginlegrar björgunarmiðstöðvar við N-Atlantshaf með aðsetur hér á landi. Ég tel þetta málefni afar brýnt og þjóðirnar væru vel í stakk búnar að standa myndarlega að þessu verkefni þannig að öryggi sjómanna væri sem best tryggt.“
Við fréttir dagsins blasir við óvissa um öryggi sjómanna sem stjórnvöld verða strax að bregðast við.