Pétur endurkjörinn formaður Kletts

Aðalfundur Kletts – svæðisfélag smábátaeigenda Ólafsfjörður – Tjörnes – var haldinn sunnudaginn 8. október. Mæting á fundinn var ágæt og umræður miklar. Þar bar hæst línuívilnun, kjara- og grásleppumál.
PeturSig2-5186-100.jpg
Að vanda samþykkti Klettur fjölmargar ályktanir og eru þær birtar hér í heild:

1. Kjarasamningar.
Aðalfundur Kletts veitir stjórn LS umboð til að vinna að kjarasamningum um laun og kjör á smábátum fyrir hönd félagsmanna sinna.

2. Slægingarstuðlar.
Aðalfundur Kletts beinir því til aðalfundar LS að mótmæla harðlega framkomnum hugmyndum um breytingar á slægingarstuðlum.

3. Flottrollsveiðar.
Aðalfundur Kletts skorar á sjávarútvegsráðherra að banna flottroll við veiðar á loðnu og síld þar til að Hafransóknastofnun setur fram sannanir um að þær séu ekki skaðlegar vistkerfinu.

4. Loðnuveiðar.
Aðalfundur Kletts skorar á hæstvirtan sjávarútvegstráðherra og hæstvirt Alþingi að draga mjög verulega úr loðnuveiðum í og utan íslensku efnahagslögsögunnar. Sér í lagi að öllum sumar og haustveiðum verði hætt. Einnig lítur fundurinn svo á að til framtíðar litið verði loðnuveiðar aðeins stundaðar til manneldis.Klettur2-5181-06100.jpg

5. Dragnótaveiðar.
Aðalfundur Kletts beinir því til aðalfundar LS að setja fullan þunga í baráttu fyrir friðun innfjarða og grunnmiða fyrir dragnótaveiðum stórvirkra veiðiskipa, jafnframt verði afli bolfisks takmarkaður við hámark 25% í hverri veiðiferð.

6. Línuívilnun.
Aðalfundur Kletts beinir því til aðalfundar LS að línuívilnun nái til allra línu sem beitt er eða stokkuð upp í landi, jafnframt verði hvert tímabil látið halda sér þannig að ef afli tímabils nær hámarki þá verði ekki tekið af næsta tímabili á eftir, heldur verði línívilnun á viðkomandi tegund á viðkomandi tímabili stöðvuð.

7. Kerfisbreytingar.
Aðalfundur Kletts beinir því til aðalfundar LS að álykta um að:
a) Hvergi verði kvikað frá þeirri stefnu að aflahlutdeild smábáta í krókaaflamarkskerfi verði veidd á króka.
b) Stærð báta í kerfinu sé komin upp undir þanmörk og ekki verði látið undan þrýstingi bátasmiðja og einstakra útgerða um stækkun báta í kerfinu.

8. Grásleppuvertíð veiðitímabil.
Aðalfundur Kletts hefur samþykkt svohljóðandi tillögu um veiðitilhögun á svæði E fyrir næstu grásleppuvertíð:
Upphafstími 10. mars. Veiðitímabil 50 dagar.

9. Grásleppuvertíð veiðitakmarkanir.
Aðalfundur Kletts styður LS í viðleitni sinni til að ná tökum á framleiðslu á grásleppuhrognum í gegnum Luroma fundina, með takmörkun á veiðum veiðiþjóðanna.

10. Grásleppuvertíð markaðssókn.
Aðalfundur Kletts fagnar því að LS skuli setja vinnu og fjármuni í að reyna að stækka markaði fyrir grásleppuafurðir.

11. Vigtarreglugerð.
Aðalfundur Kletts beinir því til aðalfundar LS að mótmæla því að við setningu vigtarreglugerðar þeirrar sem tekur gildi 1. mars 2007 skuli ekki hafa verið tekið tillit til sérstöðu og óska grásleppuveiðimanna um undanþágu frá vigtun grásleppuhrogna á hafnarvog.

12. Hámarkseign.
Aðalfundur Kletts fagnar setningu laga á síðastliðnu vori um hámarkseign einstakra útgerða í krókaaflamarkskerfinu, en harmar jafnframt að ekki skyldi vera farið eftir tillögum stjórnar LS í málinu. (3 % í öllum tegundum og tíu ára aðlögun fyrir þá sem væru fyrir ofan mörkin þegar lögin tækju gildi)

Aðalfundi Kletts lauk með kosningu stjórnar, sem er þannig skipuð:

Pétur Sigurðsson Árskógssandi formaður
Gunnar Gunnarsson Húsavík ritari
Þröstur Jóhannsson Hrísey gjaldkeri
Þórður Ólafsson Grenivík varaformaður
Sigfús Jóhannesson Grímsey meðstjórnarndi.

Myndir
Pétur Sigurðsson