„Öryggi sjómanna hefur verið fórnað fyrir peninga“

Í Laufskála RÚV 9. janúar sl. var rætt við Anton Benjamínsson framkvæmdastjóra Slippsins á Akureyri. Í viðtalinu bar á góma sú breyting sem gerð var á skipaskoðun fyrir 3 árum, þ.e. að færa hana frá Siglingastofnun til einkarekinna skoðunarstofa. Anton sagði að við þessa breytingu hefði slakknað á kröfunum og það leitt til þess að ástand íslenska flotans væri ekki nógu gott í dag.

Í svæðisútvarpi RÚV á Norðurlandi í gær var einnig fjallað um skipskoðun. Rætt var við Þorstein Þorsteinsson skipasmið og fv. skipaskoðunarmann.
Þorsteinn var afar harðorður og sagði öryggi sjómanna hafa verið fórnað fyrir peninga. Hann tók undir með Antoni að ástand skipastólsins hefði versnað á undanförnum árum. Ástæðan væri sú að eftirlitið væri ekki markvisst og það væri ekki framkvæmt af mönnum með þekkingu eða reynslu.

Þorsteinn sagði að samkeppnin hefði orðið til þess að gefið væri eftir varðandi gjaldtöku og viðkomandi sleppt við kostnaðarsamar úrbætur.

Vart þarf að taka það fram að LS tekur skoðanir þessara aðila alvarlega og hefur þegar vakið athygli samgönguyfirvalda á þeim.

Hægt er að hlusta á viðtölin í heild á slóðunum.

Anton: http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=5-1-434

Þorsteinn: http://dagskra.ruv.is/streaming/akureyri/?file=5-0-43437