Samkomulag veiðiþjóða frá 2005 endurnýjað.

Á aðalfundi Norður – Atlantshafssamtakanna (ACFNA) sem haldinn var 2. febrúar sl. var ákveðið að endurnýja samkomulag grásleppuveiðiþjóða um að takmarka veiðar. Er að því stefnt annað árið í röð að samanlagður afli þjóðanna verði ekki meiri en 28 þúsund tunnur á komandi vertíð.

Á LUROMA 2006 var samkomulag þjóðanna kynnt.

Enginn vafi leikur á að samkomulag þjóðanna frá 2005 um að draga úr veiðum bar verulegan árangur. Þó ekki hafi tekist að grynnka nægilega á birgðum til að koma á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar, sýndi sig að þjóðunum tókst að verulegu leiti ætlunarverk sitt.
Mest minnkaði framboð hrogna hér og á Nýfundnalandi, en veiði dróst saman um 35% milli ára hjá hvorri þjóð. Norðmenn stóðu einnig á bremsunni, en þar varð aflinn 2005 rúmum fjórðungi minni en á vertíðinni 2004. Hjá Grænlendingum tókst hins vegar ekki jafnvel upp. Aflinn stóð nánast í stað milli ára. Það kom hins vegar fram í máli Grænlendinga á LUROMA fundinum, að á komandi vertíð taka gildi nýjar reglur sem útiloka áhugamenn að stunda veiðarnar og töldu þeir það þýða fjórðungs minnkun sóknar.

Áðurnefnt samkomulag veiðiþjóðanna kveður á um að í hlut Íslendinga, Nýfundnalendinga og Grænlendinga komi 8000 tunnur til hverrar þjóðar og hlutur Norðmanna 4000 tunnur.