Siglufjörður – hægt hefði verið að leggja grásleppunetin blindandi

Siglfirskir grásleppukarlar lögðu netin strax á fyrsta degi 10. mars. Þátttaka í veiðunum nú er í lágmarki, aðeins 4 bátar, en 10 bátar stunduðu veiðarnar á vertíðinni 2006.

Að sögn Hilmars Zophaniassonar á Otri SI var tómlegt á miðunum. „Af sem áður var þegar kraðakið var slíkt að lá við árekstrum. Mikil barátta við að ná bestu stæðunum. Nú hefði maður getað lagt blindandi engin hætta á að einhver væri búinn að nappa stæðunum frá manni. Allir sáttir við sitt, komnir með netin á sína uppáhaldsstaði“, sagði Hilmar.

„Þegar haft var samband við Hilmar í dag, var hann að fara yfir netin og sagði hann lítið vera í þeim. „Kannski er sú gráa að senda skilaboð til kaupenda um að hún láti ekki bjóða sér það smánarverð sem í boði er“, sagði Hilmar.