Fjölmargir höfðu samband við skrifstofu LS í dag og
spurðust fyrir um strandveiðifrumvarpið. Skoðanir voru skiptar um ágæti þess. Bent var á ýmsar breytingar sem þyrfti
að gera á því í sjávarútvegsnefnd Alþingis.
Hér verða talin nokkur þeirra atriða:
800 kg aflaþak á dag. Þar komu fram þrjár skoðanir. Að þakið væri of lágt, þyrfti að ná
tonninu. Það væri of hátt,
hæfilegt væri 500 kg. Að aflaþak
væri með sama sniði og takmarkanir á fjölda handfærarúlla, 500 kg ef einn maður
réri en 800 kg að hámarki ef fleiri en einn væru um borð.
Strandveiðileyfi bundið út fiskveiðiárið. Þar voru menn á einu máli um að útfæra
þurfi leyfið á þann hátt að hægt verði að velja hversu lengi menn væru með
leyfið, allan tímann eða einn eða tvo mánuði, allt eftir hentugleikum hvers og
eins. Þeir sem væru með veiðileyfi
í atvinnuskyni væru ekki lokaðir inni í strandveiðikerfinu út fiskveiðiárið
kysu þeir að hefja veiðar í því í júní.
Sambland strandveiðikerfisins við byggðakvóta. Fram komu sterk sjónarmið um að ekki væri
rétt að setja allt á annan endan vegna 5-4-1 tonna úr byggðakvóta. Nær væri að líta á strandveiðar sem
viðbót við þá viðleitni að auka atvinnu á landsbyggðinni. Aukaúthlutun ætti því að vera 5-9-3
tonn í stað 0-5-2 tonna. Landinu
væri ekki svæðaskipt og þannig hefðu því allir jafnan rétt hvar sem þeir byggju
á landinu til að stunda strandveiðar.
Óheimilt verði að róa laugardaga og sunnudaga. Vegna þessa ákvæðis í frumvarpinu var
bent á að nær væri að hafa frídagana föstudaga og laugardaga. Það mundi auka verðmæti þess sem komið
væri með að landi þar sem vinnsla á afla væri oft stopul frá hádegi á föstudegi til
mánudagsmorguns.
Að lokum skal nefnt innlegg um að ef vel tækist til með
strandveiðarnar gæti það leitt til bjartari sýn almennings á sjávarútveginn.
,