Eftirfarandi grein eftir Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra birtist í Morgunblaðinu í dag, 9. janúar:
„Umræður um veiðarfæri, kjörhæfni þeirra, skaðsemi og hvar skynsamlegast sé að beita þeim hefur orðið fyrirferðarmeiri á síðustu misserum. Á vissan hátt er þetta til marks um breytta umræðu um fiskveiðistjórnarmál og í raun fagnaðarefni. Oftar en ekki taka þátt í umræðunni þeir sem gleggst mega vita, svo sem sjómenn og útgerðarmenn. Vaxandi athygli er líka beint að þessari umræðu af hálfu stjórnvalda og leitast hefur verið við að varpa betra og skýrara ljósi á þessi mál með vaxandi áherslu á veiðarfærarannsóknir á sviði Hafrannsóknastofnunar.
Það er ekki nýtt að ágreiningur sé um áhrif einstakra veiðarfæra á lífríkið og hafsbotninn og verður svo örugglega um ókomin ár.
Steinar Skarphéðinsson vélstjóri skrifar til dæmis grein um þessi mál í Morgunblaðið 29. desember sl., þar sem hann finnur að dragnótaveiðum í Skagafirði. Beinir hann þessum skrifum til mín og er mér ljúft að leggja orð í þennan belg.
Ekki á fiskifræðilegum forsendum
Dragnótaveiðar í Skagafirði hafa lengi verið umdeildar. Hefur áskorunum verið beint til sjávarútvegsráðuneytisins og hvatt til þess að þær veiðar yrðu takmarkaðar frá því sem nú er. Þessar áskoranir hafa verið með ýmsum hætti, en grunntónninn sá sami; að takmarka dragnótaveiðarnar, einkum dragnótaveiðar stærri skipa.
Eftir að ég kom í sjávarútvegsráðuneytið bárust mér slíkar áskoranir og gagnstætt því sem Steinar segir, tók ég þær fyrir, reyndi að skýra þá mynd sem best fyrir mér og brást síðan við. Svo sem eðlilegt var sendi ég beiðni þessa til umsagnar Hafrannsóknastofnunar. Svar stofnunarinnar var afskaplega skýrt. Það var að niðurstaðan í þessu máli yrði að byggjast á öðrum forsendum en fiskifræðilegum.
Þrátt fyrir þetta taldi ég ástæðu til þess að fara betur ofan í þessi mál. Ég ræddi þessi mál við fjölda manna; ekki síst í Skagafirði, eins og Steinari er væntanlega kunnugt um. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég aflaði mér með þeim hætti tók ég síðan ákvörðun um að banna dragnótaveiðar á Málmeyjarsundi frá og með 7. ágúst sl.
Um þessa ákvörðun mína var ágreiningur og mótmæltu dragnótarmenn henni með bréfi til mín.
Reglur um skráningu báta
Ljóst er að sú gagnrýni sem einkum er uppi varðandi dragnótaveiðar í Skagafirði er ekki síst tilkomin vegna vaxandi ásóknar stærri skipa sem fiska með dragnót í firðinum. Í upphafi gildandi fiskveiðiárs tóku útgerðarmenn nokkurra skipa ákvörðun um að „flagga“ skipum sínum norður og hófu dragnótaveiðar fyrir Norðurlandi, meðal annars í Skagafirði og á Húnaflóa. Þannig er mál með vexti að í gildi eru reglur sem girða fyrir að menn geti „flaggað“ skipum sínum á milli svæða nema einu sinni á fiskveiðiári. Var sú regla tekin upp í kjölfar deilna sem upp komu fyrir nokkrum árum og var markmiðið að koma í veg fyrir árekstra og deilur sem upp komu. Það er því ljóst að ef gripið yrði til lokana nú á miðju fiskveiðiári væri komið aftan að þessum útgerðum og í raun settar mjög strangar skorður við því að þær gætu beitt skipum sínum til veiða annars staðar við landið.
Unnið að lausn
Þrátt fyrir það hef ég lýst þeirri skoðun minni að vel komi til greina að endurskoða þessi mál. Í viðtali við blaðið Feyki (45. tbl. 2006) segi ég til dæmis: „Ég hef góðan skilning á sjónarmiðum heimamanna og einkanlega tek ég undir að tilkoma stóru bátanna setur málið í nýja stöðu. Það erindi sem nú liggur fyrir frá sveitarstjórn Skagafjarðar – og hefur að mínu viti góðan skilning almennt – er mjög góð og skynsamleg nálgun að málinu. Þess vegna er nú unnið að því máli hér í ráðuneytinu með það að markmiði að finna á því lausn, sem ég vona að heimamenn geti sætt sig við.“
Skiptar skoðanir
Sannleikurinn er sá að um hólfaskiptingar og stýringu veiðarfæra eru skiptar skoðanir. Þetta birtist til dæmis í því að í sjávarútvegsráðuneytið berast óskir um breytingar á hólfum þar sem fram koma mjög gagnstæð sjónarmið. Ganga þær óskir meðal annars út á að rýmka reglur fyrir togveiðarfæri og svo um að takmarka enn frekar þau svæði þar sem slíkar veiðar eru heimilaðar. Þessar óskir eru teknar alvarlega af minni hálfu. En jafnframt er sjálfsagt að reyna að freista þess að yfir þau mál sé farið á vettvangi þar sem fulltrúar sem flestra aðila eiga aðkomu.
Af þeim ástæðum óskaði ég fyrir nokkru eftir því að nefnd um bætta umgengni um auðlindir sjávar færi yfir þær óskir sem borist hafa. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar útgerðarmanna, sjómanna, smábátaeigenda, Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneytisins. Þannig má vænta þess að fram komi mismunandi viðhorf, en markmiðið er vitaskuld að reyna að ná fram skynsamlegri niðurstöðu í viðkvæmu máli.
Brugðist við óskum um takmörkun dragnótaveiða
Það er því ekki rétt sem Steinar Skarphéðinsson segir í máli sínu að óskir manna um takmörkun við dragnótaveiðum í Skagafirði hafi verið hundsaðar. Þvert á móti. Þegar hefur verið brugðist við með reglugerðinni frá 7. ágúst jafnframt því sem málin eru nú til meðferðar í nefnd þar sem sæti eiga fulltrúar hagsmunaaðila, auk þess sem ég hef greint frá því opinberlega að unnið sé að málinu í ráðuneytinu með það að markmiði að finna á því lausn sem ég voni að heimamenn geti sætt sig við.
——-
Höfundur er sjávarútvegsráðherra.“