Sjávarútvegsráðuneytið tekur tillit til athugasemda Umboðsmanns Alþingis

Sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út nýja reglugerð um breytingu á reglugerð um úthlutun krókaaflahlutdeildar til sóknardagabáta. Reglugerðinni sem breytt er var gefin út 9. júní 2004, en þar var „endurnýjun báts“ skilgreind á eftirfarandi hátt:
„Það telst endurnýjun báts þegar aðili, sem á bát fyrir, fær sér annan bát og flytur allar sóknarheimildir af þeim, sem hann átti fyrir til hins.“

Á grundvelli þessarar skilgreiningar töldu aðilar sem höfðu t.d. lagt í verulegan kostnað í því skyni að auka sóknargetu sig ekki eiga rétt á uppreikningi aflakvóta. Þeir gerðu því ekki athugasemdir við kvótaúthlutunina.
Nokkrir aðilar héldu því hins vegar fram að þv. sjávarútvegsráðherra Árni M. Mathiesen hefði ekki túlkað ákvæðið svo þröngt í umræðum um málið á Alþingi. Einkum bentu þeir á svör hans við spurningu Kristins H. Gunnarssonar. Einnig var vitnað til lagatextans sem er eftirfarandi:
„Taka skal tillit til áætlaðrar aflaaukningar, allt að 20 lestum í þorski á hvern bát, miðað við óslægðan fisk, vegna aukningar afkastagetu sóknardagabáta vegna endurnýjunar þeirra á fiskveiðiárinu 3-20-2002 eða á fiskveiðiárinu 4-20-2003 fram til 28. maí 2004, enda hafi sóknargetan ekki nýst til myndunar aflareynslu samkvæmt nánari reglum er ráðherra setur.“

Það varð úr að Umboðsmaður Alþingis fjallaði um ágreininginn og komst að þeirri niðurstöðu að ráðuneytinu bæri að túlka „endurnýjun báts“ víðara.

Ný reglugerð sýnir að ráðuneytið hefur breytt samkvæmt tilmælum Umboðsmanns. Greinin sem ágreiningur var um orðast nú svo:

„Það telst endurnýjun báts þegar aðili, sem á bát fyrir, fær sér annan bát og flytur allar sóknarheimildir af þeim, sem hann átti fyrir til hins. Þá telst það einnig endurnýjun báts hafi aðili gert verulegar breytingar og/eða lagfæringar á sóknardagabáti sínum sem eru til þess fallnar að auka afkastagetu hans umtalsvert. Við mat á því hvort um endurnýjun báts telst vera að ræða samkvæmt ákvæðum 2. málsl. skal m.a. litið til þess hversu mikið breytingar og/eða lagfæringar á bátnum hafa kostað og hvort þær hafa samkvæmt fyrirliggjandi gögnum leitt til að afli bátsins hafi aukist umtalsvert í hlutfalli við sókn.“

Fiskistofa mun nú fjalla um innsend og væntanleg erindi og úrskurða í hverju máli fyrir sig.

Sjá fyrri umfjöllun um málið frá 4. nóvember 2005
http://www.smabatar.is/frettir/04-11-2005/650.shtml