Skuldir smábátasjómanna ráðast af úrskurði dómstóla um gengistryggðu lánin – Skulduðu 60 milljarða eftir hrun


Í Fiskifréttum
26. ágúst sl. birtist viðtal við Örn Pálsson um skuldastöðu smábátaeigenda og
stöðuna almennt í þeim málum. 
Yfirskrift viðtalsins er:  
Skuldir smábátasjómanna ráðast af úrskurði dómstóla um gengistryggðu
lánin   – Skulduðu 60
milljarða eftir hrun.


„Skuldastaða
smábátasjómanna ræðst að verulegu leyti af niðurstöðum dómsstóla um meðferð
gengistryggða lána. Það gæti jafnvel farið svo að skuldir smábátasjómanna lækki
um helming frá því sem þær voru í upphafi síðasta árs. Á fiskveiðiárunum
6-20-2005 og 7-20-2006 er talið að smábátasjómenn hafi keypt kvóta fyrir á
fjórða tug milljarða króna.


,,Flest
svokölluð “erlend lán” sem smábátaeigendur tóku voru í raun lán í íslenskum
krónum með gengistryggingu. Dómur Hæstaréttar 16. júní og tilvitnun og álit
Héraðsdóms Reykjavíkur í þann dóm í máli NBI gegn Þráni ehf. og staðfesting
Hæstaréttar á þeim dómi sýnir að slík lán er óheimilt að verðtryggja með gengi.
Allt stefnir því í gjörbreytta skuldastöðu smábátaeigenda, þótt of snemmt sé að
fagna allsherjarleiðréttingu þessara lána. Ég tel að í upphafi síðasta árs hafi
skuldastaða smábátaútgerðarinnar verið nálægt 60 milljörðum króna. Heildarskuldir
smábátaútgerðarinnar gætu því lækkað um tugi milljarða króna og jafnvel farið
niður í 30 milljarða,“ sagði Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands
smábátaeigenda, í samtali við Fiskifréttir er rætt var við hann um skuldastöðu
smábátasjómanna.

 

Vildum
samræmdar aðgerðir

Á
síðasta ári og í ár hafa bankarnir komið til móts við lántakendur úr röðum
smábátaeigenda með skuldaaðlögun. Bæði er þar á ferðinni afskriftir og lenging
lána. Örn gagnrýndi að það skyldi ekki hafa verið gert með almennum aðgerðum.
,,Við kröfðumst þess strax að öll gengistryggð lán smábátaútgerðarinnar yrðu
meðhöndluð með sambærilegum hætti. Við áttum fundi með bönkunum og komum með
tillögu um niðurfellingu skulda að hluta og greiðsluaðlögun sem okkur fannst
sanngjörn. Bankarnir og stjórnvöld voru ekki samþykk að fara þá leið.  Í stað þess hófu lánastofnanir
skuldaaðlögunarferli við hvern og einn sem stóð frammi fyrir miklum
erfiðleikum. Einstakar útgerðir fá því mismunandi niðurfellingu skulda, sumir
lítið og aðrir ekki neitt. Þarna finnst okkur að verið sé að mismuna mönnum.
Það er lausn sem mér geðjast ekki í því samkeppnisumhverfi sem útgerðin er í,“
sagði Örn.

 

Tilkomin vegna
kvótakaupa

Örn
gat þess að skuldasöfnun hjá smábátaútgerðinni væri aðallega tilkomin vegna
kvótakaupa. Hann áætlaði að smábátaeigendur hefðu keypt kvóta fyrir á fjórða
tug milljarða á fiskveiðiárunum 6-20-2005 og 7-20-2007. Hann sagði að ekki væri
óalgengt að smábátaútgerð sem staðið hefði í kvótakaupum og annarri
fjárfestingu hefði skuldað um 100 milljónir króna fyrir hrun. Slík skuld hefði
svo verið komin yfir 200 milljónir króna í upphafi árs 2009. Dæmi væru um hærri
skuldir, allt upp í nokkur hundruð milljónir króna og örfáar smábátaútgerðir
skulduðu milljarð eða meir.

,,Af
því sem ég hef kynnt mér þá voru áætlanir þessara útgerða yfirleitt mjög vel
ígrundaðar. Þær stóðu vel undir greiðslubyrði af lánum sínum þegar lánin voru
tekin og höfðu auk þess borð fyrir báru ef gengi íslensku krónunnar félli,
jafnvel um 25-30%. Að vísu má gangrýna það að aflaheimildirnar voru keyptar of
dýru verði undir það síðasta. Þá var þorskkvótinn seldur á rúmlega þrjú þúsund
krónur kílóið. Segja má að bankarnir hafi sprengt upp kvótaverðið með því að
bjóða mönnum lán til mun lengri tíma en áður.

Þá
er það einnig gagnrýnivert að bankarnir réru að því öllum árum að þeir sem
fengu peninga greidda fyrir kvótann ávöxtuðu þá innan bankans. Varð þeim nokkuð
vel ágengt framan af í þeim efnum. Þetta fé fór því ekki í fjárfestingar aftur
í atvinnulífinu vítt og breitt um landið. Mig grunar reyndar að ekki sé svo
mikið eftir af þessum peningum í dag í mörgum tilfellum. Það er tapað fé,“
sagði Örn. 

 

Enn að semja

Fram
kom hjá Erni að eftir dóm Hæstaréttar væru bankarnir enn að semja við einstaka
smábátaeigendur um skuldamálin eða komnir í harðar innheimtuaðgerðir í einstaka
tilvikum. ,,Það er enn verið að taka einn og einn aðila fyrir sem ekki hefur
náð að uppfylla kröfur lánastofnanna. Ég hefði viljað sjá svipaða lausn til
bráðabirgða og boðið var upp á varðandi húsnæðislánin að greidd yrði ákveðin
upphæð í afborganir og vexti af hverri milljón þar til Hæstiréttur hefur kveðið
upp endanlegan dóm,“ sagði Örn Pálsson. “


KJARTAN STEFÁNSSON

kjartan@fiskifrettir.is