Skyndilokanir vegna línuveiða á þorski í sögulegu hámarki – eru það ekki gleðileg tíðindi fyrir Hafró?

Vart líður sá dagur að þeir sem eru á vettvangi fiskveiða allan ársins hring, tjá sig um ástandið á miðunum. Nánast án undantekninga er það á einn veg – „þvílíkt mok, þetta er ótrúlegt“.

Svæðisfélög LS hafa hvert af öðru ályktað um stöðuna á miðunum og skorað á sjávarútvegsráðherra að bæta við heimildir þessa árs um 25 – 30 þúsund tonn. Enn sem komið er hefur hann ekki orðið við kalli þeirra.

Sú spurning gerist æ áleitnari hvort Hafrannsóknastofnun hafi vanmetið þorskstofninn. Á þetta ekki síst við um árganga frá 2001, sem stofnunin hefur mælt lélega. Auk upplifunar sjómanna sýnir samantekt á fjölda skyndilokana að þær hafa aldrei verið fleiri. Leikmenn draga þá ályktun að ástæða þess hljóti eingöngu að skýrast af miklu magni smáfisks.

Frá áramótum til 8. apríl voru skyndilokanir orðnar 27 talsins sem er 80% aukning miðað við sama tímabil 2006 (15). Munurinn var enn meiri 2005 (11 skyndilokanir) og 2004 (12).

Skýringar forstjóra Hafrannsóknastofnunar Jóhanns Sigurjónssonar og Björns Ævarrs Steinarssonar sviðsstjóra veiðarfæraráðgjafasviðs á upplifun sjómanna á gríðarlegum aflabrögðum hafa ekki verið sannfærandi.

Mikill fjöldi skyndilokana kemur verulega á óvart þegar tekið er mið af því sem Hafró hefur sett fram. Til dæmis lélegir árgangar frá 2001 og það sem fram kemur í síðustu skýrslu stofnunarinnar „Nytjastofnar sjávar 6-20-2005 – aflahorfur 7-20-2006“. Þar segir: „Árið 2006 verður hlutfall ungfisks nokkuð hátt en 2007 verður aflasamsetning hagstæðari“.

Mikil aukning í fjölda skyndilokana hljóta að teljast gleðitíðindi fyrir Hafró og styður vissulega skoðanir sjómanna um gott ástand þorskstofnsins. Við þessi tíðindi aukast vísbendingar um að þorskstofninn sé stærri en útreikningar Hafró gefa til kynna.