Þetta og fleira má lesa út úr svari sjávarútvegsráðherra Einars Kristins Guðfinnssonar (D) við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur (V) um mismunandi hrygningarstofna þorsks í veiðiráðgjöf.
Fyrirspurn Kolbrúnar hljóðaði svo:
1. Hefur ráðherra kynnt sér fyrirliggjandi rannsóknaniðurstöður um mismunandi hrygningarstofna þorsks hér við land og tekið afstöðu til þess hvort þær gefi tilefni til breytinga á aðferð við veiðiráðgjöf og úthlutun aflamarks?
2. Hafa rannsóknastofnanir ráðuneytisins, þ.m.t.
Hafrannsóknastofnunin, komið að þessum rannsóknum eða hefur verið leitað álits þeirra á þeim?
Ráðuneytið sendi fyrirspurnina til Hafrannsóknastofnunar og var svar hennar eftirfarandi:
„Þær niðurstöður rannsókna sem hér er vísað til eru rannsóknir á stofneiningum þorsks hér við land sem stundaðar hafa verið á Hafrannsóknastofnuninni um árabil í samstarfi við aðrar stofnanir og háskóla, einkum líffræðideild Háskóla Íslands. Þessar rannsóknir hafa beinst að athugunum á erfðaefni, kvarnalögun og efnainnihaldi kvarna í þorski. Við þessar rannsóknir hefur verið haft að leiðarljósi að greina þorsk með tilliti til svæðisbundins uppruna hans. Þessu til stuðnings hafa legið til grundvallar áralangar merkingatilraunir Hafrannsóknastofnunarinnar á þorski og athuganir á vaxtareiginleikum þorsks á mismunandi svæðum við landið.
Lengi hefur verið vitað að þorskur hrygnir víða umhverfis landið og einnig að hann dreifist mikið eftir hrygningu. Þetta kemur m.a. fram í ritum Bjarna Sæmundssonar frá upphafi síðustu aldar. Í fyrrgreindum nýlegum rannsóknum Hafrannsóknastofnunarinnar og Háskóla Íslands hafa komið fram vísbendingar um afmarkaðar hrygningareiningar þorsks. Ekki liggja þó fyrir niðurstöður um mikilvægi einstakra hrygningareininga með tilliti til heildarframleiðslugetu stofnsins. Samkvæmt framangreindum rannsóknum virðist líklegast að mikilvægasti hluti hrygningarinnar fari fram undan Suður- og Suðvesturlandi eins og áður hefur verið talið. Smærri hrygningareiningar sem finnast allt í kringum landið gætu þó hugsanlega lagt til verulegan hluta seiðaframleiðslu við ákveðnar umhverfisaðstæður. Einnig er líklegt að þessar smærri hrygningareiningar séu mikilvægar með hliðsjón af fjölbreytileika innan tegundarinnar.
Aukin vitneskja með frekari rannsóknum á líffræði, atferli og vistfræði þorsks við Ísland mun væntanlega varpa frekara ljósi á mikilvægi staðbundinna hrygningareininga í nýliðun þorsks og hvernig megi taka tillit til þeirra við veiðistjórnun. Enn sem komið er vantar þó mikið á að nægileg þekking á stofneiningum þorsks sé fyrir hendi til að hægt sé að stjórna veiðum á grundvelli slíkrar þekkingar.“
Heimild:
www.althingi.is