Á fundi í Snæfelli sem greint hefur verið frá hér á síðunni var meðal fjölmargra mála rætt um fyrirhugað kvótaþak. Félagsmenn lýstu fyllsta trausti á stjórn LS og framkvæmdastjóra vegna þessa máls og voru á einu máli um að forysta félagsins hefði staðið vel að því málefni.
Þá greindi formaður félagsins, Símon Sturluson, frá vinnu sem unnin hefði verið í því skyni að fá reglugerðarhólf um línuveiðar á norðanverðum Breiðafirði opnað. Meðal annars hefði hann ásamt formanni Útvegsmannafélags Snæfellsness, Ólafi Rögnvaldssyni, orðið sammála um að skora á sjávarútvegsráðherra að fella reglugerð nr. 4-19-262 úr gildi. Þeir sendu því sameiginlegt bréf til ráðherra í nafni félaganna og sögðu það skoðun félagsmanna að reglugerðina ætti tafarlaust að fella úr gildi, hún ætti engan rétt á sér.