Snæfell skorar á sjávarútvegsráðherra að auka þorskkvótann

Á fundi Snæfells sem sagt var frá hér í gær var rætt um ástand þorskstofnsins.
Fundarmenn voru á einu máli um að sú ördeyða sem lesa hefði mátt út úr gögnum Hafró hefði ekki gengið eftir. Engin breyting væri á aflabrögðum í þorski miðað við undangengin ár og því forsenda niðurskurðar frá sl. sumri ekki lengur fyrir hendi.
Í framhaldi af þessum umræðum var samþykkt eftirfarandi ályktun:

„Félagsfundur í Snæfelli haldinn á Hellissandi 13. janúar 2008 skorar á sjávarútvegsráðherra að auka nú þegar veiðiheimildir í þorski. Ljóst er að þorskgengd nú er engu minni en undanfarin ár og engar vísbendingar um að það skelfingarástand, sem forsenda þriðjungs niðurskurðar í þorski byggist á, sé á miðunum. Aflabrögð nú eru ekki í samræmi við fullyrðingar Hafró og því rík ástæða til að auka nú þegar veiðiheimildir í þorski.“