Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 13.febrúar sl:
„Arthur Bogason
skrifar um strandveiðar
Hinn 18. nóvember
2009 barst sjávarútvegsráðherra bréf, undirritað af 183 íbúum af rúmlega 500 í
Langanesbyggð. Í bréfinu var komið
á framfæri þökkum fyrir strandveiðikerfið og það mikla líf sem það hleypti í
hafnir landsins sl. sumar. Að auki
var tilgreint að í Langanesbyggð hefðu um 25 einstaklingar haft beina atvinnu
af róðrum í strandveiðikerfinu, auk afleiddra starfa. Um kæra búbót hefði verið að ræða.
Þetta bréf er
einsdæmi í sögu fiskveiðistjórnunar á Íslandi. Fagnaðarefni í ljósi ástandsins í landinu.
LÍÚ finnur
strandveiðunum allt til foráttu og fullyrðir að þær séu sóun verðmæta úr
fiskveiðiauðlindinni. Nýútkomin skýrsla Háskólaseturs Vestfjarða um
strandveiðarnar sl. sumar sé óræk sönnun þess.
LÍÚ rótast af
heilagri vandlætingu í skýrslunni til að finna höggstað á strandveiðunum og
telur sig nú þegar hafa borað á gullæð. Þ.e. kaflann um gæði afla strandveiðiflotans. Samtökin minnast ekki orði á þá
heildarniðurstöðu skýrsluhöfunda, að strandveiðarnar hafi tekist vel.
Þórðargleði LÍÚ
er pínleg. Í bölmóði sínum tína
samtökin til lægstu tölur úr skýrslunni og alhæfa út frá þeim. Enginn fjölmiðill hefur séð ástæðu til
að gera sjálfstæða athugun á þessari framsetningu, þrátt fyrir að hún komi frá
óskammfeilnustu hagsmunagæslumönnum á Íslandi.
Þetta eru
mennirnir sem moka rándýrum mannamat í formi makríls og annarra uppsjávarfiska
í bræðslur landsins til að fóðra niðurgreidda svínakjafta innan
Evrópusambandsins og eldislaxa utan þess.
Þetta eru
mennirnir sem hausa að stærstum hluta þorskinn fyrir aftan eyrugga um borð í
frystitogurunum sínum og hafa til dagsins í dag komið sér undan því að vigta
aflann inn á vinnslulínurnar í skipunum, þrátt fyrir að tæknin sé fyrir löngu
til staðar.
Þetta eru
mennirnir sem gengu eins og villidýr um Smuguna norðan Noregs á sínum tíma og
heimtuðu aflaheimildir fyrir afrekin. Og fengu. Tala
engu að síður um Norðmenn eins og þeir séu djöflar í mannsmynd.
Ekki nema vona að
þeir ætlist til að mark sé á þeim tekið.
Kaflinn úr
skýrslu Háskólaseturs Vestfjarða um gæði aflans af strandveiðiflotanum sl. sumar
hljóðar svo, orðrétt:
,,Mat
forsvarsmanna fiskmarkaða og fiskkaupenda á gæðum fisks af strandveiðum var
mjör mismunandi. Meirihluti þeirra taldi þó að gæði strandveiðiafla stæðist vel
samanburð við annan afla … Töldu 56% að gæðin stæðust samanburð, eða 66%
þeirra sem tóku afstöðu. Niðurstöður
eru svipaðar fyrir svæði A, B og D, en á svæði C voru 70% viðmælenda á því að
gæðin stæðust vel samanburð, eða 87% þeirra sem tóku afstöðu.“
Ég hafði samband
við Sigríði Ólafsdóttur, sem hafði yfirumsjón með skýrslunni og ritstýrði
henni. Ég bað hana um
undirliggjandi gögn að baki ,,gæðaspurningunni“. Í svari hennar kom eftirfarandi fram:
,,23%
fiskkaupenda töldu að aflinn stæðist illa samanburð við annan afla. Einungis 8 einstaklingar standa á bak
við þessa prósentutölu. 6 af
þessum 8 eru handhafar kvóta (75%)“.
Þá hafði ég
samband við Veiðieftirlitið og spurði hvort þeirra menn hefðu orðið þess
sérstaklega varir að gæði afla strandveiðibátanna hefðu skorið sig í einhverju
frá öðrum afla á sama tíma. Svo
reyndist ekki vera.
Við hvorugan
aðilann hafði LÍÚ, né fjölmiðlar, haft samband.
LÍÚ má eiga sína
túlkun fyrir sig. En mikið eiga
þessir menn bágt. Skýrslan
afhjúpar aumkunarverðan blekkingarleik LÍÚ. Þeir töldu sig hafa fundið snöggan blett á strandveiðunum og
eins og hungraðir úlfar réðust þeir á hann.
Frá því
Landssamband smábátaeigenda hóf göngu sína hef ég ótal sinnum orðið vitni að
þessum vinnubrögðum. Eitt sinn
neituðu þeir t.d. að taka þátt í ráðstefnu erlendis vegna þess að undirrituðum
var einnig boðið á hana.
Í seinni hluta
þessara skrifa tek ég til umfjöllunar ályktun aðalfundar LÍÚ 2009 um
strandveiðarnar.