Sverrir Sveinsson nýr formaður Skalla

Skalli – félag smábátaeigenda á Norðurlandi vestra – hélt aðalfund sinn laugardaginn 14. október sl. Það bar helst til tíðinda að formaður Skalla til 13 ára Hilmar Zophaniasson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Hilmari voru þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins með kröftugu lófataki frá fundarmönnum.

Nýr formaður Skalla var kjörinn Sverrir Sveinsson Siglufirði.
Sverrir retti2-2234-100.jpg
Að vanda voru dragnótamál fyrirferðamikil á fundinum. Óánægju gætti hjá félagsmönnum vegna sinnuleysis sjávarútvegsráðuneytisins á erindi sveitarstjórnar um friðun Skagafjarðar fyrir dragnótaveiðum. Einn fundarmaðurinn orðaði það svo að nú virtist ráðuneytið ekki lengur hlusta á óskir sveitarstjórna. Fjölgun dragnótabáta væri því yfirvofandi, sem mundu ganga kerfisbundið til verks við eyðingu staðbundinna fiskistofna í Skagafirði og á öðrum nálægum innfjarðamiðum.

Aðalfundur Skalla samþykkti eftirfarandi ályktanir:

1. Að LS verði veitt umboð til samningsgerða um kaup og kjör sjómanna á smábátum.

2. Að LS standi enn frekar að lækkun kostnaðar við eftirlitsþátt að skoðun á smábátum.

3. Að LS fylgist með þróun símkerfa og að NMT kerfi verði viðhaldið þar til annað jafn gott kerfi tekur við.

4. Að slæingarstuðull verði óbreyttur.

5. Fundurinn ítrekar áðurkomnar tillögur um bann við dragnótaveiðum á Skagafirði.
Lína verði dregin úr Ásnefi í norðurenda Drangeyjar í N-enda Málmeyjar. Þá vill fundurinn vekja athygli á því að takmarka þurfi stærð dragnótabáta þar sem stærð þeirra virðist komin úr böndum.

Mynd:
Sverrir Sveinsson formaður Skalla