Eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason, formann LS, birtist s.l. föstudag í Fiskifréttum:
‘Yfirstandandi vetur hefur verið andstyggilegur. Hvert stórviðrið af öðru hefur lamist yfir lög og svörð, skemmt og eyðilagt, meitt og deytt.
Þegar rétt vika var í vorjafndægur hvessti hann klærnar; Ofsaveður skall á í mynni Ísafjarðardjúps og hvolfdi smábát sem átti stutt eftir heim. Góðir drengir máttu sín einskis í brjáluðu hafrótinu. Eftir standa þorp og bæjir Vestfjarðakjálkans fátækari eftir. Ólýsanlegur harmleikur. Orð til lítils. Samúð og samhugur er það eina tiltæka og ég hygg ekki ofsagt að allir Íslendingar voru þar þátttakendur.
Lífið heldur áfram, hvað sem á dynur. Daginn lengir og brátt verður veturinn að baki með sitt myrkur og miskunnarleysi. Fari hann og veri.
Góðar fréttir = Vondar fréttir
Undangengna mánuði (og ár) hafa stöðugt borist fréttir af miklu fiskeríi, víða við landið. Sumstaðar hreint og klárt mok, fiskurinn vænn og vel á sig kominn. Þessar frábæru fréttir eiga ekki upp á pallborðið í vísindaheiminum. Þar er sjaldnast bein að hafa og góð veiði fiskimanna aðeins sönnun þess hversu lunknir þeir eru að elta uppi síðasta tittinn í sjónum. Hinar verstu fréttir þar á bæ. Ályktunarhæfnin í gerviheimi vísindareiknimódelanna er því einskorðuð við eitt og aðeins eitt: setja verður enn öflugri bremsur á þessa fundvísu skrattakolla sem engu eira.
Ég verð í auknum mæli var við að fiskimenn eru að gefast upp á ábendingum sínum um hróplegt misræmi milli góðra aflabragða annars vegar og ördeyðu reiknilíkana hins vegar. Við þessi reiknilíkön tolla engar slíkar upplýsingar. Það er tími til kominn að finna samheiti yfir fiskifræðina og reiknimódelin. Ég legg til að framvegis verði allt batteríið kallað “Teflonvísindin”.
Formúla Teflonvísindanna er einföld:
Það eru X margir þorskar í sjónum
Fiskimenn veiða allt of marga þeirra
Teflonvísindin vita hvernig á að bjarga þorskstofninum
Svokallaðar “athugasemdir” og “gagnrýni” annarra er óráðshjal ábyrgðarlausra manna
Það vantar meiri peninga í rannsóknir til að örugglega sé hægt að bjarga þorskstofninum – og öllum hinum í leiðinni
Heimsendaþráin
Hún er undarleg þessi þörf mannskepnunnar fyrir að hafa hangandi yfir hausnum á sér hamfarir og helst dagsettan heimsendi. Undanfarin ár hafa vísindamenn keyrt langt framúr sjálfum sér. Frá þeim rignir uppstyttulaust skýrslum og tilkynningum þar sem útlistaðar eru skelfilegar framtíðarsýnir, flestar ef ekki allar vegna athafna mannsins. Í krafti vísindanna bjóðast þeir blessunarlega til að bjarga mannkyninu og í leiðinni öllu öðru lífi á jörðinni.
Stórkostlegasta kenningin sem tröllríður öllum fjölmiðlum nú um stundir er “hlýnun jarðar”, sem mér skilst að sé að stórum hluta rakin til þess að ég á stóran og sterklegan amerískan pallbíl sem bryður í sig malbik og andrúmsloft. Þessar kenningar byggja vægast sagt á umdeilanlegri túlkun gagna. Það breytir því þó ekki að þeir sem voga sér draga “hlýnun jarðar” kenninguna í efa eru umsvifalaust stimplaðir sem óábyrgir kjánar eða drullusokkar, ellega á launaskrá olíufélaganna. Oftast þó allt í senn.
Formúla þessarar speki er kunnugleg:
Lofthjúpur jarðar er X stór
Mennirnir eru að eyðileggja hann
Vísindin vita hvernig á að leysa vandann
Svokallaðar “athugasemdir” og “gagnrýni” annarra er óráðshjal ábyrgðarlausra manna
Það vantar meiri peninga í rannsóknir til að örugglega sé hægt að bjarga mannkyninu (frá sjálfu sér) og (Sjúkk!!) jörðinni í leiðinni
Nú er ég sjálfsagt kominn út á glerhálan ís með þessa kerskni og takandi þá áhættu að verða grýttur á næsta götuhorni fyrir að vera óábyrgur og fjandsamlegur öllum umhverfismálum. Það er vitaskuld tómt kjaftæði, en ég er á hinn bóginn búinn að fá út um eyrun af því að láta mata mig á botnlausu drullumalli í nafni einhverra vísindakenninga. Til að reka a.m.k. eina stoð undir þetta ætla ég að enda þennan pistil á upptalningu sem verður að teljast umhugsunarverð. Þessi upptalning er af fréttaflutningi og greinum úr “helstu” og “virtustu” dagblöðum og tímaritum heims (ein bók meðtalin). Allt í nafni vísindanna. Hvernig á því stendur að blöðin, tímaritin (og bókin) halda enn “virðingu” er mér hulið, hvað þá aðrir sem hlut eiga að máli. En dæmi hver fyrir sig:
A) Ísöld framundan (1895 – 1924):
1. The Times, 24. febrúar 1895: “Jarðfræðingar telja að jörðin kunni að vera að frjósa á nýjan leik”. Áhyggjur af því að “önnur ísöld” sé framundan vegna stækkunar jökla í norðri og harkalegs veðurfars í Skandinavíu.
2. Los Angeles Times, 28. júní 1923: “Ísöld er hugsanlega byrjuð…þetta er viðurkennt af færustu mönnum í vísindaheiminum, þeim sem eru hæfastir til að fjalla um málið”.
3. New York Times, 18. september 1924: “MacMillan gefur skýrslu um fyrirboða nýrrar ísaldar”.
B) Hlýnun framundan (1933 – 1954)
New York Times, 17. mars 1933: “Bandaríkin í lengsta hitnunarskeiði síðan 1776; Hitatölur í hámarki í 25 ára uppsveiflu”.
2. Time Magazine, 1951: “Sífrerinn í Rússlandi hörfar um 100 metra á ári”.
3. U.S. News and World Report, 18. janúar 1954: “Vetur eru mildari, sumrin þurrari. Jöklar hörfa og eyðimerkur stækka”.
C) Ísöld framundan (Sjöundi áratugurinn):
1. Time Magazine, 24. júní 1974: “Loftslagsfræðingar sem varað hafa við yfirvofandi hörmungum eru stöðugt áhyggjufyllri vegna veðurfarsgagna sem þeir nú rannsaka og kunna að vera boðberar nýrrar ísaldar”.
2. New York Times, 21. maí 1975: “Vísindamenn vega og meta hvers vegna hitastig í heiminum fer fallandi. Mjög mikil kólnun er almennt talin óumflýjanleg”.
D) Hlýnun framundan (1990 – ????):
1. Earth in the Balance (bók eftir Al Gore) 1992: “Um það bil 10 milljónir íbúa Bangladesh munu á næstu áratugum missa heimili sín og framfærslu vegna hækkandi yfirborðs sjávar og hlýnunar lofthjúpsins”.
2. The Daily Telegraph, 2. febrúar 2006: “Milljarðar munu deyja” segir Lovelock, sem segist að öðru leiti ekki vera svartsýnismaður. (Einmitt!! (innskot greinarhöfundar)) “Siðmenningin mun brotna upp í sundurtættan skríl þar sem miskunarlausir stríðsherrar munu drottna. Plágum hrelldar leifar tegundarinnar (mannsins) munu flýja sundursprungna og brotna jörðina til Norðurskautsins, síðasta tempraða heimshlutans. Þar munu nokkur frjósöm pör lifa af”.
Og svo að lokum, svona til að innsigla trúverðugleikann: spá nokkurra vísindamanna um nánustu framtíð:
1. Skýrsla Lin Zhen-Shan og Sun Xian við jarðfræðiháskólann “Nanjing Normal University” í Kína, 31. júlí 2006: “Fjölstofnarannsóknir á breytingum hitafars á hnattræna vísu og tilhneigingu til hitafalls á næstu 20 árum”. http://www.springerlink.com/content/g2617-12-28j5021/fulltext.pdf 2. RIA Novisty (Rússneska frétta og upplýsingaþjónustan) 8. febrúar 2007: “Í stað hinnar viðurkenndu hlýnunarkenningu mun jörðin standa frammi fyrir hægri kólnun 2012 –2015…..sem mun óumflýjanlega leiða til djúpfrystingar 2055 – 2060” http://en.rian.ru/russia/2-590789-20070115.html
Það er varla nema von að þetta lið krefjist þess að mark sé á þeim tekið. Arthur Bogason’