Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi var haldinn á Egilsstöðum í dag.
Fundurinn var fjörugur og fjöldi ályktana samþykktar. Meðal þeirra var að krefjast þess að stjórnvöld hækki sjómannaafslátt verulega til að koma til móts við fyrirsjáanlega kjaraskerðingu sjómanna.
Á fundinum var mikið rætt um ákvörðun stjórnvalda að fara að tillögum Hafrannsóknastofnunar að skerða þorskkvótann um þriðjung. Mikillar óánægju gætti með störf stofnunarinnar eins og fram kemur í eftirfarandi ályktun fundarins:
„Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi haldinn á Egilsstöðum 28. september 2007 mótmælir harðlega kvótaniðurskurði í þorski. Niðurstöður Hafró taka í engu mið af reynslu sjómanna og mati þeirra á ástandi þorsksins. Það leiðir til þess að tillögur stofnunarinnar eru ekki í samræmi við raunveruleikann á miðunum allt í kringum landið.
Einnig benda trillukarlar á Austurlandi á að vísindi, sem taka ekki tillit til breytts umhverfis í hafinu svo sem hitastigs og göngur ætis, eru ótrúverðug.
Smábátaeigendur á Austurlandi harma að þeir sem standa á bakvið „bestu fáanlegu þekkinguna á lífríki sjávar“ að mati stjórnvalda, skuli hunsa skoðanir sjómannsins á lífríkinu.
Þá bendir fundurinn á þverstæðu í málflutningi Hafró að á sama tíma og stofnunin lýsir því yfir að þorskinn vanti æti leggi hún til að loðnuveiðar verði hafnar í haust. Aðalfundurinn skorar á stofnunina að koma meiru skikki á málflutning sinn og banna alfarið loðnuveiðar í flottroll.
Einnig telur fundurinn engin rök fyrir rúmlega 30% niðurskurði á þorskkvóta, sem leiðir óhjákvæmilega til samþjöppunar aflaheimilda með tilheyrandi byggðaröskun.
Vill fundurinn að línuskipum 100 brl og stærri verði bannaðar veiðar innan 3 sml frá landi, og skipum sem veiða með dragnót verði óheimilar veiðar í fjörðum og innan 3 sml frá landi í flóum, þá verði trollveiðar bannaðar innan 6 sml.
Fundurinn telur að sú aðgerð að létta sókninni af viðkvæmum svæðum á grunnslóð sé meiri friðunaraðgerð en niðurskurður aflaheimilda og líklegri til að skila árangri í uppbyggingu þorskstofnsins.“
Meðal annarra ályktana sem samþykktar voru eru eftirtaldar:
Fundurinn fordæmir allar tilslakanir stjórnvalda um dragnótaveiðar og troll og harmar að ekki sé lengur tekið tillit til sjónarmiða sveitar- og bæjarstjórna um nýtingu heimamiða.
Fundurinn er andvígur öllum hugmyndum um frekari stækkun báta í krókaaflamarkskerfinu.
Smábátaeigendur á Austurlandi skora á Alþingi að létta öllum veiðitakmörkunum af bátum sem einungis eru útbúnir með tvær handfærarúllur.
Formaður Félags smábátaeigenda á Austurlandi er Ólafur Hallgrímsson Borgarfirði. Með honum í stjórn eru eftirtaldir:
Guðni Ársælsson Fáskrúðsfirði
Ívar Björgvinsson Djúpavogi
Kári Borgar Ásgrímsson Borgarfirði
Kristinn Hjartarson Neskaupstað.