Talsverðrar eftirvæntingar gætti meðal smábátaeigenda sem annarra eftir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur varðandi vaxtakjör af gengisláni. Fyrirfram var þó ljóst að fordæmisgildi dómsins yrði takmarkað, honum yrði hvort eð er skotið til Hæstaréttar.
Niðurstaða Héraðsdóms var að miðað skuli við óverðtryggða vexti Seðlabankans á þeim samningum sem Hæstiréttur dæmdi um miðjan júní að væru ólögmætir.
Enn ríkir því óvissa um vaxtamálin af slíkum samningum. Það er óskandi að niðurstöðu Hæstaréttar sé ekki lengur að bíða en þar til í september n.k.
Línuritið hér að neðan sýnir þróun umræddra vaxta á tímabilinu janúar 2005 til og með ágústmánuði á þessu ári. Meðaltalið er 13,84%. Í mörgum tilfellum er um að ræða vexti sem eru 10 prósentustigum hærri en á gengistryggðu samningunum. Í dómi héraðsdóms virðist ekki vera velt upp þeim fleti hvort viðkomandi lántakendur hefðu haft áhuga á slíkum viðskiptum.