Veiðarfærastýring

Eftirfarandi grein eftir Sæmund Einarsson birtist í Morgunblaðinu sl. sunnudag, 25. mars.

„Föstudaginn 16. febrúar flutti Höskuldur Björnsson erindi á sal Hafró að Skúlagötu 4. Í fundarboði segir m. a. að skoðuð sé sú leið að halda eingöngu þeim svæðum opnum þar sem mikið hefur verið togað, en friða alveg fyrir togveiðum þau svæði sem lítið hefur verið toga.SaemundurEinarss1_12.jpgÍ erindi hans kom fram á kortum núverandi veiðislóð togskipa sem sýnir að veiðiálagið er mismikið kringum landið. Jafnframt að heildarafli á þorski og ýsu í dregin veiðarfæri sé hlutfallslega hár. Að mínu mati væri æskilegt að stjórnvöld gripu inn í með t.d. aukinni veiðarfærastýringu eða lokun á svæðum.

Núverandi sjávarútvegsráðherra Einar K. Guðfinnsson hefur á stuttum ferli sínum tekið á umdeildum málum, sem sýnir ótvírætt að valdssvið hans er mikið, eins og eftirfarandi dæmi sína:

1. Takmörkun á veiðum síldar og loðnu í flottroll.
2. Hvalveiðar í atvinnuskini.
3. Friðun kóralssvæða fyrir suðurlandi og í Eyjafirði.
4. Úthlutun heimilda ungþorsks til áframeldis.
5. Aðalhaldssöm úthlutun á loðnukvóta þegar ekki er vitað um heildarmagn loðnustofnsins.
Á þessu má sjá að ýmsu má breyta þegar viljinn er fyrir hendi.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort það sé æskilegt fyrir stofnun eins og Hafró að vera dómari í eigin málum þegar um er að ræða svo yfirgripsmikið starfssvið sem þessum aðila er gert að annast.
Mætti umhverfisráðuneytið t.d. ekki hafa eitthvað um það að segja hvernig umgengni manna er um landgrunnið umhverfis landið? Gagnlegt væri að vísindamenn þar á bæ fái að lesa úr gögnum til að rökræða í samvinnu við kollega sína hjá Hafró um eðlilega nýtingu hafsvæða.

Það er í mínum huga rökrétt að færeyska fiskveiðikerfið (dagakerfið) sé betra en það Íslenska Færeyingar friða landgrunn sitt að mestu fyrir togveiðum. Ef þeir verða fyrir einstaka aflabresti á milli ára mun fiskigengd aukast aftur vegna þess að þeir halda uppeldisstöð sinni á grunnslóð óskemmdri.

Ég fagna aukinni tækni sem sýnir okkur lífríki hafsins með meiri nákvæmni. Það kallar á aukna ábyrgð vísindamanna sem vinna að rannsókn og ráðgjöf þegar kemur að friðun og nýtingu fiskistofna. Eftir að farið var að nota myndavélar sem fjarstýrður kafbátur getur flutt úr stað, hefur orðið bylting á möguleikum manna til að sjá áhrif hinna ýmsu veiðarfæra sem beitt eru til veiðanna, þannig að þeir sem halda því fram að dregin veiðarfæri valdi litlum sem engum skaða þegar þeim er beitt til veiða eru hreinlega fallnir á tíma, því reyndin er önnur.
Nú er svo komið að hrygningarslóð nytjafiska undan ströndum Suðurnesja er illa farin vegna dekurs stjórnvalda við dragnót- og trollveiðar, flatfiskurinn sem réttlætti þessar veiðar á sínum tíma er nú uppurinn að mestu á þessum svæðum.

Neyðarkall

Reykjanes aðildarfélag smábátaeigenda á Suðurnesjum (innan Landssambands smábátaeigenda) hefur óskað eftir varanlegri lokun línu og netahólfs út frá Sandgerði fyrir togveiðum.
Lokun þessa svæðis er nú tímabundin inni hjá Sjávarútvegsráðuneytinu lokun nr. 940. Beiðni þessi kallast “neyðarkall” og hefur fengið ítrekaða umfjöllun innan ráðuneytisins án árangurs. Til sendur að fylgja þessari beiðni fast eftir innan félagsins.
Þetta hólf þarf að taka strax til rækilegrar skoðunar, því ef kemur til varanlegrar lokunar þess fyrir togveiðum þá verður að vera til skráð núverandi staða þess til viðmiðunar eftir nokkurra ára lokun. Nú gætu margir hugsað með sér að þarna færi krókaaðdáandi gegn togveiðum sér til hagsbóta, en það er ekki rétt ályktað því ég geri mér grein fyrir mikilvægi togveiða þegar kemur að fjölbreytileika í aflasamsetningu og einnig að jafnri hráefnisöflun til vinnslu á afla. Það þarf fjölbreytta flóru útgerðar, en engu að síður góða stjórn á veiðum.

Hagsmunir ólíkra útgerða geta auðveldlega farið saman þegar veiðafærastýringu er beitt. Nú er línuívilnun veitt á handbeitta línu en margir álitu að þar hefði verið stigið fyrsta skrefið til veiðafærastýringa og meira kæmi á eftir, t.d. ívilnun á handfæraveiðar, línuveiðar og netaveiðar, með þessu má sjá að útgerðir ef af verður geta auðveldlega valið um veiðiaðferðir því þarna gæti raunverulegur ávinningur verið í boði.

Með þökk fyrir þarfa umræðu og vona að hún leiði af sér meiri tillitssemi manna gagnvart uppeldis og hrygningarslóð nytjafiska okkar á grunnslóð í framtíðinni því ekki þýðir að fást um þann skaða sem orðinn er, en nýta þess í stað reynslu liðinna ára sem víti til varnaðar.

Sæmundur Þ. Einarsson (höfundur er smábátasjómaður).“