Vísindi á villigötum

S.l. fimmtudag birtist eftirfarandi grein í Fiskifréttum eftir Guðmund Halldórsson, fyrrverandi skipstjóra frá Bolungarvík. Hún bar yfirskriftina „Vísindi á villigötum“:

„Nú er svo komið að algjör trúnaðarbrestur ríkir milli sjómannastéttarinnar og stórs hluta þjóðarinnar annars vegar og Hafrannsóknastofnunarinnar hins vegar vegna veiðiráðgjafar Hafró. Sjómenn telja að veiðiráðgjöfin byggist ekki á vísindum og því síður á staðreyndum. Þeir upplifa allt annað. Að mínu viti er ráðgjöfin sambland af trúarbrögðum og pólitík.

Trúarbrögðin

Veiðiráðgjöfin byggist á togararalli sem framkvæmt er á allt að 35 ára gömlum togurum með gömul veiðarfæri, togað er á löngu fyrirfram ákveðnum stöðum sem fiskurinn er horfinn af vegna vistfræðilegra ástæðna. Að byggja ráðgjöf á þess háttar líkönum er ekki vísindi heldur trúarbrögð. Það hefur Hafró með eigin athöfnum sannað rækilega þegar stofnunin týndi sex hundruð þúsund tonnum af þorski og kallaði ofmat.

Pólitíkin

Fyrir kosningar 2003, þegar kosningabaráttan var farin að snúast að miklu leyti um kvótakerfið, fór þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, í kosningaferðalag um landið. Hann sagði á fundi á Akureyri að útgerðarmenn væru búnir að herða sultarólina vegna niðurskurðar veiðiheimilda undanfarinna ára til hagsbóta fyrir land og lýð. Nú væri komið að uppskerutíma og allir myndu njóta góðs af. Við gætum strax á komandi ári bætt við okkur þrjátíu þúsund tonnum af þorski og síðan haldið áfram að feta okkur upp næstu árin. Stuttu síðar gaf Hafró út veiðiráðgjöf um þrjátíu þúsund tonna aukningu í þorski. Þetta er eina aukningin í tíð Jóhanns forstjóra. Hver voru rökin fyrir aukningunni? Þeir lásu það úr togararallinu! Síðan hefur verið stanslaus niðurskurður, allt lesið úr togararallinu!

Vísindin

Nú má enginn skilja orð mín svo að ég geri mér ekki grein fyrir merkum vísindastörfum sem unnin eru innan Hafró og því merka vísindasafni sem stofnunin býr yfir. En framþróun í stofnanabákni eins og Hafró er orðin verulega heft þegar stofnunin verður öðrum þræði tæki í höndum hagsmunaaðila og stjórnmálamanna. Þiggi slík stofnun fjárframlög frá hagsmunaaðilum er verulega hætta á ferðum. Eigi stofnunin að njóta trausts þjóðarinnar má hún hvorki vera háð hagsmunaaðilum með fjárframlögum né áhrifum í gegnum stjórn. Þá fer stofnanasjúkdóma að gæta. Eitt augljósasta dæmi þess er þegar lokað er fyrir gagnrýni, flest er ljóst og fátt kemur á óvart í óendanlegum breytileika náttúrunnar. Annað dæmi um stofnanasjúkdóm er að gera rannsóknarskipin hvort um sig aðeins út sex mánuði á ári og er féleysi kennt um. Þetta gerist þrátt fyrir að niðurstöður grunnrannsókna á lífríkinu byggist á útgerð þessara skipa. Á sama tíma þenst báknið út í steinhöllinni á Skúlagötunni. Ríkiseinokunarvísindastofnanabákn er aldrei til góðs. Þó má virða það við stofnunina að hún hefur verið að fjölga störfum á landsbyggðinni þar sem sjávarútvegur gegnir mikilvægu hlutverki. Til dæmis eru veiðarfærarannsóknir á Ísafirði allra góðra gjalda verðar. En í samanburðinum við Skúlagötuna er hætt við að enn halli mjög á landsbyggðina, sem ætti í raun að vera öfugt.

Ný hugsun

Einar Oddur Kristjánsson kom með nýja hugsun inn í umræðuna um hafrannsóknir. Hann vildi nýta háskólasamfélagið í rannsóknastarfsemi. Landssamband smábátaeigenda samþykkti nær samhljóða á aðalfundi sínum í fyrra að beita sér fyrir að sjálfstæð rannsóknastofnun á sviði sjávarútvegsins verði sett upp á Vestfjörðum í tengslum við háskólasamfélagið á Ísafirði.
Ný stofnun kæmi á heilbrigðri samkeppni í hafrannsóknum sem án efa leiddi til bætts árangurs. Nýta mætti fjármuni betur t.d. með því að gefa nemum í doktorsnámi tækifæri til að stunda rannsóknarvinnu sem hluta af námi. Hafi Háskóli Íslands þurft á samkeppni að halda þá þarf Hafrannsóknastofnun það ekki síður.

Höfundur er fyrrverandi skipstjóri búsettur í Bolungarvík.

Viðskipti með krókaaflamark – magnaukning og verðhækkun haldast í hendur”


Uppskriftir