Yfirlýsing – ákvörðun um róður alltaf vandlega íhuguð

Skipstjórar 3 krókaaflamarksbáta hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna umfjöllunar um sjósókn þeirra sem birtist í Morgunblaðinu 12. apríl sl. Yfirlýsinguna er birt í Morgunblaðinu í dag.

„Hjörtur Gíslason ritstjóri sjávarútvegskálfs Morgunblaðsins „Úrverinu“ er höfundur bryggjuspjallsins þann 12. þ.m. Fyrirsögn greinar hans er „Einstakt glóruleysi“. Í grein sinni fjallar ritstjórinn í niðrandi tón og af fullkomnu þekkingarleysi um sjósókn okkar. Hann kallar hana glórulausa og varpar þannig rýrð á áralanga reynslu okkar á að stunda róðra á Vestfjarðarmiðum. Einna helst má skilja orð ritstjórans á þann veg að skipstjórar umræddra báta stundi glímuna við Ægi konung með algjöru virðingarleysi, fari á sjóinn án þess að spá á nokkurn hátt í veður, sjólag eða önnur öfl náttúrunnar.

Í grein sinni opinberar hann algjört þekkingarleysi sitt á bátaflotanum þegar hann kallar báta okkar „opna báta“ en allir þeir þrír bátar sem um er rætt eru dekkaðir 15 tonna cleopetra-bátar sem hafa reynst alveg óaðfinnanlega við ýmsar aðstæður.

Ritstjórinn reynir líka á allan hátt að gera lítið úr ummælum skipstjórans á Friðfinni ÍS105 og telur sig greinilega vera betur til þess fallinn að meta þær aðstæður sem þarna voru.

Undirritaðir munu ekki sitja undir slíkum ásökunum og eru furðu lostnir yfir hvað knýr ritstjórann til þannig skrifa þegar tekið er tillit til áratuga reynslu hans í að fjalla um málefni sjávarútvegsins.

Undirritaðir vilja upplýsa lesendur Morgunblaðsins um að áður en ákvörðun er tekin um að fara í róður er farið yfir fjölmarga þætti. Meðal þeirra er að fara vandlega yfir veðurspár, erlendir veðurvefir eru einnig skoðaðir. Þá eru fengnar upplýsingar sem næst vettvangi gegnum öldudufl og símhringingum til stærri báta. Allar þessar upplýsingar eru vandlega yfirfarnar og bornar saman við reynslu okkar af sambærilegum veðurspám, þ.e. hvernig þær hafa gengið eftir. Væri þetta ekki gert er hætt við að lítið yrði um sjósókn smábáta frá Vestfjörðum. Viðskiptavinir þeirra gætu ekki treyst á jafnt flæði afla frá þeim allan ársins hring, eins og verið hefur undanfarin ár.

Í því tilfelli sem hér um ræðir töldum við undirritaðir ekki ástæðu til að aflýsa róðri. Við vorum vissir um að veðurskilyrði leyfðu róður þennan dag. Við leystum landfestar allir um svipað leiti um kl. 6:30 um morguninn. Þar sem við áttum lóðir í sjó og veðurspár fyrir dagana á eftir voru ekki góðar vildum við bjarga þeim verðmætum sem í lóðunum eru og ekki síst ná fisknum sem ellegar hefði skemmst á línunni. Byrjað var að draga um kl 10, en þá hafði veður orðið verra en spár höfðu gert ráð fyrir. Það skal þó tekið fram að engin hætta var á ferðum. Þegar við vorum næstum hálfnaðir við að draga línuna hafði hins vegar bætt í veðrið þvert á það sem spár gerðu ráð fyrir. Við sammæltumst því strax um að yfirgefa veiðisvæðið.

Þannig er, að við vissar aðstæður þá detta bátar út af sjálfvirka sendikerfinu (STK) ekki endilega bara við slæmar veðuraðstæður. Á landleiðinni höfðum við ákveðið að fara í land á Þingeyri þar sem við töldum að ekki væri óhætt að fara fyrir Barðann. Þegar við vorum komnir langleiðina að mynni Dýrafjarðar hringir Vaktstöð siglinga um borð í Hrólf Einarsson og tilkynnir okkur að Hrólfur og Guðmundur Einarsson væru dottnir út úr kerfinu en Friðfinnur ekki.
Skipstjórinn á Hrólfi gefur þeim þá upp staðsetningu og ferðaáætlun eins og venja er ásamt veðurskilyrðum og tjáir þeim að Guðmundur sé u.þ.b. 15 min á undan og Friðfinnur rétt á eftir, aldrei í þessu samtali né í þeim sem á eftir komu gáfum við til kynna að hætta væri á ferðum og vorum við í stöðugu talstöðvar-og símasambandi við strandstöðina alla leið inn á Þingeyri.

Það kom okkur því í opna skjöldu að tekin hafði verið ákvörðun um það úr landi að við þyrftum aðstoðar við. Við ætlum ekki að vanþakka slíkt, en enginn okkar kallaði eftir slíkri aðstoð þar sem við töldum hana óþarfa.

Þá teljum við það umhugsunarvert að blaðamaður, sem telur sig fagmann, á fjölmiðli sem vill láta taka sig alvarlegan gerir engar tilraunir til að upplýsa hvaðan beiðni um viðbúnaðarástand kom heldur ræðir fjálglega um kostnað vegna slíks viðbúnaðar.

Að endingu viljum við koma því á framfæri að fyllsta trúnaðar á að gæta um samskipti milli einstakra skipa og Vaktstöðvar siglinga. Við teljum að slíkt hafi ekki verið gert í umræddu tilfelli.

Að lokum viljum við þakka öllum þeim aðilum sem vaka yfir öryggi sjómanna, en hörmum framangreind skrif ritstjórans og meintan leka á samskiptum okkar við Vaktstöð siglinga.

Bolungarvík, 16. apríl 2006

Ólafur Jens Daðason skipstjóri á Hrólfi Einarssyni ÍS-255

Egill Jónsson skipstjóri á Guðmundi Einarssyni ÍS-155

Jón Magnússon skipstjóri á Friðfinni ÍS-105“