Samtök norskra strandveiðimanna – Norges Kystfiskarlag sendi í gær frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
„3500 smábátakvótar í ólöglegar togveiðar
Ólöglegar togveiðar fyrir milljarða króna hafa verið afhjúpaðar í Barentshafinu. Veiðarnar eru tilsvarandi öllum kvóta norskra strandveiðiflotans eða um 3500 kvótum báta undir 35 fetum. Samtök norskra strandveiðimanna, Norges kystfiskarlag, eru þeirrar skoðunar að þessi afhjúpun ólöglegra veiða hljóti að hafa áhrif á sjávarútvegsstefnu Norðmanna og krefjast þess að fækkun í smábátaflotanum verði þegar stöðvuð. “Brennpunkt” fréttaskýringaþáttur norska ríkissjónvarpsins upplýsti um þessar ólöglegu veiðar sem að mati strandveiðimanna eru aðeins brot af þeim ólöglegu fiskveiðum sem stundaðar eru. Samtök Strandveiðimanna telja það mun mikilvægara að stöðva þessar ólöglegu togveiðar, bæði með verndun fiskistofna og rekstur flotans í huga, en að kippa lífsbjörginni frá sjálfbærum strandveiðum eins og strangar reglugerðir um veiðar smábáta eru nú að gera.
Í “Brennpunkt” þann 21. september voru afhjúpaðar ólöglegar togveiðar fyrir milljarða í Barentshafinu. Það kemur samtökum strandveiðimanna ekki á óvart að norskir hagsmunaaðilar eigi stóran hlut í þessum veiðum. Samtökin minna á að Paul Jensen formaður samtaka norskra strandveiðimanna benti á þessa hluti þegar Norðmenn voru í samningaviðræðum við Rússa um fiskveiðar fyrir ári síðan og telja að sú ábending hafi e.t.v. haft þau áhrif að upp um hinar ólöglegu togveiðar hafi komist.
-Að ólöglegar togveiðar séu stundaðar í stórum stíl eru engar fréttir fyrir okkur. Það sem er fréttnæmt er að fjölmiðlum hafi loks tekist að draga þær fram í dagsljósið og að samtök útgerðarmanna virðast hafa uppgötvað hvað sé að gerast, segir Paul Jensen aðspurður um efni þáttarins. Jensen er þeirrar skoðunar að málið þurfi að komast á vettvang utanríkisstjórnmála til að á ólöglegar togveiðar verði upprættar.
Útreikningar samtaka strandveiðimanna sýna fram á að þessar ólöglegu togveiðar jafngilda verðmætum þess þorskkvóta sem strandveiðiflotinn fær úthlutað í heild sinni. Ef þessu er síðan deilt á báta, jafngilda ólöglegu veiðarnar kvótum 3500 báta að 35 fetum eða kvótum 50-0-18-feta strandveiðibáta. Til samanburðar má geta þess að heildarfjöldi báta undir 28 m. í norska strandveiðiflotanum er í dag u.þ.b. 2300 bátar. Samtök strandveiðimanna segja það kolrangt hversu ströngum reglugerðum strandveiðar verða að lúta og að afhjúpun ólöglegra togveiða verði að hafa afleiðingar á fiskveiðistjórnun Norðmanna.
Samtök norskra strandveiðimanna krefjast þess að fækkun í norska strandveiðiflotanum verði tafarlaust stöðvuð og að hætt verði að þjarma að sjálfbærum veiðum strandveiðibáta með sífellt strangari reglugerðum varðandi ástundun veiða þeirra. Samtökin telja það óverjandi að strandveiðum sé stjórnað með svo hörðum reglum að lífsgrundvellinum sé kippt undan fótum fjölda manna sem stundað hafa hefðbundnar veiðar á smábátum meðfram strandlengju Noregs um leið og ólöglegar togveiðar séu stundaðar í svo stórum stíl sem raun ber vitni.
Þegar togaraflotinn getur stundað ólöglegar veiðar fyrir milljarða hlýtur að vera möguleiki á áframhaldandi veiðum smábáta á sama grundvelli og þær eru stundaðar í dag eða að úthluta smábátaflotanum kvóta sem menn geta lifað af, staðhæfa norsku strandveiðisamtökin.“