Aðalfundur Bárunnar – Gunnar Pálmason endurkjörinn formaður

Aðalfundur Bárunnar var haldinn á Kænunni í Hafnarfirði laugardaginn 9. október sl.
Eftirfarandi tillögur voru samþykktar til 20. aðalfundar LS.

Línuívilnun

Aðalfundur Bárunnar skorar á stjórnvöld að breyta lögum um línuívilnun á þann hátt að einu gildi hvort róið er með handbeitta línu eða uppstokkaða línu svo fremi að hvorutveggja sé unnið í landi.

Grásleppuveiðar

Aðalfundur Bárunnar leggur til að grásleppuveiðar hefjist annars vegar 1. mars og hins vegar 1. apríl að vali útgerðarmanna og standi þá annars vegar til 30. maí og hins vegar til 30. júní miðað við óbreytt veiðitímabil. Vilji er til að stytta veiðitímabilið ef nauðsyn krefur vegna markaðsaðstæðna.

Veiðarfærarannsóknir

Enn og aftur hvetur Báran til þess að veiðarfærarannsóknir verði efldar og áhrif veiðarfæra á viðgang fiskistofna rannsakaðar með það að markmiði að litið verði til niðurstaðna úr þeim rannsóknum þegar ákveðið er hvernig veiðum við strendur landsins er háttað.

Stjórn Bárunnar var endurkjörin en hana skipa:
Gunnar Pálmason formaður Garðabæ
Brynjar Sigurðsson gjaldkeri Hafnarfirði
Jón Þorbergsson ritari Kópavogi
Guðbrandur Magnússon Garðabæ
Ólafur Karl Brynjarsson Hafnarfirði