Fundur með Jacques Diouf, aðalframkvæmdastjóra FAO

Mánudaginn 20. desember s.l. bauðst Alþjóðasamtökum strandveiðimanna og Alþjóðasamtökum smábænda að funda með Jacques Diouf aðalframkvæmdastjóra FAO, Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Fundurinn var haldinn í Róm, en hann sátu einnig fulltrúar frá IPC (International Planning Committee – starfshópur sem vinnur að tillögum um hvernig félagasamtök og FAO geta starfað saman) ásamt fulltrúa frá ICSF (International Coalition in Support of Fish Workers – samtök sem vinna að ýmsum verkefnum til stuðnings strandveiðimönnum og fiskverkafólki), ásamt starfsfólki frá FAO.

Á fundinum voru ýmis mál rædd og eins og við var að búast hvöttu fulltrúar félagasamtakanna aðalframkvæmdastjórann til að efla tengsl stofnunarinnar við félagasamtök á þeim sviðum sem FAO starfar á.
Farið var yfir svokallaða SOFA 2004 skýrslu frá FAO, en hún fjallar um genabreytt matvæli. Hörð gagnrýni hefur komið frá smábændum allsstaðar að, en þeir telja fjarri lagi að þetta sé aðferðin til að bjarga hungruðum heimi. Sá vandi sé fyrst og fremst stjórnsýslulegur en liggi ekki í framleiðslugetu.

Fundur um strandveiðar samhliða COFI 2005

Málefni strandveiðimanna fengu drjúgan tíma á fundinum. Diouf var minntur á að eftir COFI fundinn 2003 (Fundur FAO um fiskveiðar, haldinn á tveggja ára fresti) var haldinn sérstakur fundur með félagasamtökum sem starfa að málefnum strandveiðimanna. Ástæða þess fundar var að mörgum félagasamtökunum fannst að raddir þeirra hefðu engan veginn fengið að heyrast nægilega á sjálfum COFI fundinum. Sá fundur markaði engu að síður þau tímamót í dagskrá COFI að “smábátaveiðar” voru sérstakur dagskrárliður, en það hafði ekki gerst til fjölda ára.

Eftir þennan sérstaka fund með félagasamtökunum var sagt að sérstakur vinnuhópur yrði skipaður af FAO um málefni strandveiðimanna. Enn hefur ekkert gerst í þeim efnum, hvað sem síðar verður og var Diouf hvattur til að skoða þetta mál.

Í framhaldi af þessu hét Diouf því að í tengslum við næsta COFI fund, sem verður í mars nk. að skipulagður verði fundur með fulltrúum strandveiðimanna. Þá eru “smábátaveiðar” annað árið í röð á dagskrá COFI fundarins, sem sýnir greinilega að þær njóta nú aukinnar athygli alþjóðastofnana á borð við FAO.

Athyglisverð þróun er að eiga sér stað í skilgreiningu á svokölluðum frjálsum félagasamtökum. Undanfarin ár hafa sprottið upp eins og gorkúlur út um allan heim “frjáls félagasamtök” sem í mörgum tilfellum eru aðeins fáeinir sjálfskipaðir einstaklingar sem fara að tala í nafni stórra hagsmunahópa, án þess að hafa neitt sem heitir félagaskrá, kosningu til embætta eða forystu á bak við sig. Hvað þá að þau haldi aðalfundi þar sem”félögum” er gefinn kostur á tillögurétt eða málfrelsi. Þessum samtökum eru iðulega gefin mikilúðleg nöfn sem hljóma traustvekjandi og “stofnanaleg”. Þau hafa hingað til verið kölluð “NGO” (Non Governmental Organizations – óháð félagasamtök).

Segja má að félagasamtök sem byggja á hefðbundnum aðferðum við uppbyggingu slíkra samtaka séu búin að fá sig södd af þessu og því þau nú kosið að skilgreina sig sem CSO, (Civil Society Organizations, opinber félagasamtök, án þess að vera á neinn hátt tengd “hinu opinbera”).

Athyglisvert verður að fylgjast með því hvort alþjóðastofnanir eins og FAO fara að gera harðari kröfur varðandi slíka skilgreiningu, en hingað til hefur FAO ekki viljað skipta sér af þessum málum nema að mjög takmörkuðu leyti.

Fundur Diuf FAO 1-4-20.jpg
Myndin:
Frá vinstri:
Eckhard W. Hein, FAO
Mafa E. Chipeta, FAO
Beatrice Gasco, FAO
Jacques Diouf, aðalframkvæmdastjóri FAO
Antonio Onorati, IPC
Paul Nicholson, Alþjóðasamtök smábænda
Arthur Bogason, Alþjóðasamtök strandveiðimanna
Coaltei Diego, FAO

Mynd: Brian O’Riordan, ICSF

Furðurlegt fréttamat – grein í Fiskifréttum”