Glæsilegur árangur í baráttunni gegn mengun frá Sellafield

Það eru sannarlega gleðileg tíðindi að nú skuli dregið gríðarlega úr þeirri mengun sem kemur frá kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield. Efnið sem um ræðir er technetium 99 en Sellafield stöðin hefur dælt árlega í hafið um þremur milljónum tonna af technetium menguðu úrgagnsvatni, eða um 8 milljónum lítra á dag. Þó vissulega sé um háar tölur að ræða þó dregið verði úr um 90% er þetta engu að síður stórsigur fyrir þjóðirnar við Altantshafið. Technetium mengun hefur mælst upp með ströndum Noregs og óbreytt ástand því mikið áhyggjuefni, ekki aðeins fyrir Noreg, heldur og aðrar þjóðir á svæðinu.

Baráttumál ACFNA

Samtök strandveiðimanna við Norður Atlantshaf (ACFNA – Alliance of Coastal Fishers in the North-Atlantic) ákváðu á aðalfundum sínum 2002 og 2003 að leggja mesta áherslu á liðveislu við baráttuna gegn stefnu stjórnenda Sellafield stöðvarinnar. Sendu þeir fundir frá sér áskoranir til stjórnvalda við Norður-Atlantshafið þar að lútandi. Á árinu 2002 hélt ACFNA vinnufund í Lofoten í Noregi og ráðstefnu um málefni strandveiðimanna. Einn framsögumanna á ráðstefnunni kom frá samtökunum Lofoten Against Sellafield og á árinu 2003 bauð Bellona stofnunin í Noregi ACFNA að hafa framsögu á ráðstefnu sem haldin var við Sellafieldstöðina fyrir réttu ári síðan. Ráðstefnan var skipulögð af Bellona í samvinnu við BNFL (British Nuclear Fuels), sem er eigendi Sellafield stöðvarinnar. Bellona stofnunin hefur í 10 ár barist fyrir því að hætt verði að dæla menguðu úrgangsvatni frá Sellafield og reyndar kemur fram á heimasíðu stofnunarinnar (http://www.bellona.no/) að dregið verði um 98% úr technetium 99 menguninni.
ACFNA þáði boðið og fór formaður samtakanna á ráðstefnuna í Sellafield og flutti þar erindi þar sem reynt var að gera sem gleggsta grein fyrir lífsnauðsyn þess fyrir strandveiðimenn við Norður-Atlantshafið að höfin héldust hrein til frambúðar og að óbreytt ástand væri bein ógnun við þeirra lífsafkomu.

ACFNA sendir umhverfisráðherrum hamingjuóskir

Það er gleðilegt fyrir Samtök strandveiðimanna að hafa lagt þessu þarfa máli lið og eykur tiltrú á samstarfi af þessu tagi.
ACFNA mun nú senda umhverfisráðherrum þeim sem barist hafa ötullega í þessu máli hamingjuóskir, sem og þeim félagasamtökum sem hlut eiga að máli.