Grásleppuveiðimenn telja Fiskistofu geta gert betur

„Er Fiskistofa gagnslaus í viðurlögum nema þegar kemur að því að hrella menn sem gleyma að skila afladagbókinni á réttum tíma?“ spyr grásleppuveiðimaður sem horfir upp á það dag eftir dag að grásleppa er seld á fiskmörkuðunum. Þannig hafa á síðustu 4 vikum verið seld 17 tonn af grásleppu á Íslandsmarkaði þrátt fyrir að skylt sé að sleppa henni sé hún veidd í net af bátum sem ekki stunda grásleppuveiðar skv. sérstöku leyfi. „Hvernig má þetta vera?“, er spurt af örgum veiðimanni sem hafði samband við skrifstofu LS í dag.
Í reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða er ákvæðið sem hér er vitnað til. 1. gr. orðast svo: „Skylt er að hirða og landa öllum afla sem í veiðarfæri kemur. Þó er þeim aðilum sem stunda netaveiðar, aðrar en grásleppuveiðar skv. sérstöku leyfi Fiskistofu, skylt að sleppa allri grásleppu, sem er lifandi í netum þegar þau eru dregin.“

Aðalfundur LS 2003, samþykkti eftirfarandi um það mál sem hér er til umfjöllunar:
„Þeir einir stundi grásleppuveiðar sem hafa til þess leyfi
Aðalfundur LS krefst þess að Fiskistofa framfylgi lögum um grásleppuveiðar og komi í veg fyrir að aðrir en þeir sem grásleppuleyfi hafa stundi grásleppuveiðar, landi grásleppu og grásleppuhrognum.
Ath. Óheimilt er með öllu að nýta hrogn úr dauðri grásleppu.

Hér með er ályktunin áréttuð og Fiskistofa hvött til að herða eftirlit með þessum ólöglegu veiðum.
Verði framhald á að það sé látið átölulaust að grásleppu sé landað og seld á mörkuðum utan leyfilegs veiðitíma gæti það skaðað viðkvæman grásleppuhrognamarkað og þar með rýrt möguleika grásleppuveiðimanna á viðunandi afkomu af veiðunum.