Grásleppuverkendum fækkar

Á fundi Grásleppunefndar LS lýstu menn áhyggjum sínum vegna fækkunar leyfishafa til verkunar grásleppuhrogna sem óhjákvæmilega fylgir auknum kröfum í verkunaraðstöðu. Nefndin telur að tilskipanir Fiskistofu sem byggðar eru á regluverki Evrópusambandsins taki ekki nægjanlegt tillit til aðstæðna við atvinnurekstur einyrkja. Verkun grásleppuhrogna er áratugalöng atvinnugrein grásleppuveiðimanna og því hefðu reglur átt að koma til móts við aðstæður eins og þær eru. Kröfur Fiskistofu gera atvinnugreininni verulega erfitt uppdráttar.
Nefndin telur að undanþágur sem gefnar hafa verið undanfarin ár hafi ekki gefið tilefni til að ætlunin væri að framfylgja jafn ströngum reglum og raun er á. Það sé óásættanlegt að einyrkjar, þar sem starfsemi fer fram í 2-3 klst á dag, þurfi að uppfylla sömu kröfur og fjölmennir vinnustaðir þar sem starfsfólk er við störf fullan vinnudag.

Nefndin telur eftirlit af hinu góða, en betra hefði verið að ráðast að rótum vandans, þ.e. hver sé algengasta orsök þess að vara uppfylli ekki þau gæði sem gerð eru til hennar. Nefndin dregur það stórlega í efa að þar hafi salernisleysi í viðkomandi verkun einhver áhrif.