Grásleppuvertíðin blettótt mjög

Það er óhætt að segja að byrjun grásleppuvertíðarinnar sé fjarri þeim væntingum sem veiðimenn gerðu sér. Almennt voru menn nokkuð bjartsýnir um svipaða vertíð og á síðasta ári og ekki spillti viðunandi hrognaverð fyrir. Það er þekkt í grásleppuveiðunum að þær geta verið mjög misgjöfular milli svæða, en byrjun þessarar vertíðar ætlar að slá flestu við í þeim efnum.

Stiklað á stóru
Sé farinn rúnturinn um landið og byrjað við Reykjanesið er óhætt að segja að þar hafi komið lang bestu skotin – jafnvel uppí ævintýralega veiði dag og dag. Á hinn bóginn er Faxaflói svo steindauður að vart hefur annað eins sést. Einn grásleppukarl í Reykjavík var t.d. búinn að draga fjórum sinnum fyrir páskana ‘og ekki búinn að fá í einn kút’. Sá man ekki eftir slíkri ördeyðu í Faxaflóa. Svipaða sögu er að segja upp eftir ströndinni allt að norðanverðum Breiðafirði, en þar hefur veiðin verið þokkaleg. Sama má segja um syðsta hluta Vestfjarða.

Þaðan í frá og allt að sunnanverðu Langanesi hefur gengið hins vegar harla dapurt og sumstaðar mjög lélegt. Eitthvað rjált er á Húsavík, en talsvert frá því sem var á síðasta ári. Þeir sem nýta svæðið sunnan Langaness láta bærilega af sér og t.d. er búið að salta í á fimmta hundrað tunnur á Bakkafirði. Það segir raunar ekki alla söguna því fjöldi bátanna er umtalsverður. Á svæðinu norðan við Nesið er veiðin mun minni og veiðimönnum á Raufarhöfn og Þórshöfn líst rétt mátulega á blikuna.

Erfitt tíðarfar það sem af er vertíð hefur sett stórt strik í reikninginn og á nokkrum stöðum hefur annar fiskur, aðallega þorskur, þvælt upp netunum sem þýðir að ekki veiðist sú gráa á meðan.

Vissulega er ekki öll nótt úti enn og reyndir grásleppukarlar benda á að við Faxaflóann geti veiðin dregist fram í byrjun maí.

Veiðin í öðrum löndum
Grásleppuveiðin í Danmörku hefur verið afspyrnuléleg það sem af er og á Grænlandi eru menn rétt farnir af stað. Engar fréttir hafa borist frá Noregi og vertíðin á Nýfundnalandi er rétt handan hornsins.