Í Morgunblaðinu í gær birtist eftirfarandi grein eftir Konný Breiðfjörð þar sem hún skorar á þingmenn:
„Þingmenn, bjargið dagakerfi smábáta
Sjávarútvegsráðherra, Árni M. Mathiesen, ætlar að útrýma dagakerfi smábáta og verðfella eignir okkar og gera verðlausar eftir nokkur ár.
Við sem eigum dagabáta höfum ályktað undanfarin ár um að setja verði svokallað 23 daga gólf í dagakerfið svo ekki fækki dögum. Í dag eru þeir 19 en voru 23 árið 2002.
Landssamband smábátaeigenda hefur farið með þessa kröfu til Árna ár eftir ár en ekkert hefur verið gert.
Eins var þetta ár, en þegar umræður voru hafnar, heyrast raddir nokkurra manna sem vilja fá kvóta, raddir þeirra sem hafa verið að veiða mest í þessu kerfi undanfarin ár.
Þá bregur svo við að Árni býður þeim að velja kvóta en skerðir okkur sem eftir verðum í dagakerfinu, býður okkur 18 daga með áframhaldandi 10% skerðingu á dögum ár hvert, þó svo að aukning verði á heildarveiði. Og ekki nóg með það heldur á að takmarka vélarstærð og rúllufjölda, ef stækka þarf vél fækkar dögum.
Ég vil að almenningur viti þetta og þingmenn sem eiga að fjalla um frumvarpið nú á næstu dögum. Frumvarp þetta verður að lögum nema þingmenn bjargi dagakerfinu með því að setja gólf í dagana.
Dagakerfið er sóknarkerfi með fljótandi tölu. Það veiðist vel þegar mikill fiskur er á miðunum en lítið þegar færri fiskar eru á slóðinni og er líka háð gæftum. Engum fiski er hent því það er enginn hvati til þess í sóknarkerfi.
Höfundur er dagabátaeigandi.