Manngerðir Hljóðaklettar – grein í Fiskifréttum

Fimmtudaginn 16. september sl birtist eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason í Fiskifréttum undir fyrirsögninni ‘Manngerðir Hljóðaklettar’.

Sem ungur drengur varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fara árlega í Hljóðakletta, náttúruundrin miklu sunnan Ásbyrgis í Keldukverfi. Þessar hrikalegu hamraborgir eru þeim ógleymanlegar er þar fara um, með tröllslegum kynjamyndum sem klipptum úr þjóðsögum og ævintýrum.
Hljóðaklettar bera nafn með rentu. Sé staðið á vissum blettum og kölluð faein orð, enduróma þau úr nokkrum áttum augnabliki síðar.

Hver er munurinn?

Þessi myndlíking kemur mér í hug þegar ég sé íslenska ráðamenn tíunda aðdáun og hrifningu erlendra gesta sem hingað koma til að kynna sér fiskveiðistjórnunarkerfið.
Undanfarin misseri hafa streymt hingað sjávarútvegsráðherrar, þingnefndir, fyrirtækjastjórnendur og fleiri, til að “kynna sér íslenska fiskveiðistjórnun”. Flestir þessara aðila munstra sig með niðurnjörvaða dagskrá útbúna hérlendis, hvar tíundað er hverja rætt skal við og hversu lengi.
Þessi dagskrá er, án mikilla frávika þessi (ekki endilega í þessari röð):
Sjávarútvegsráðuneytið
Hafrannsóknarstofnun
LÍÚ
HB Grandi og/eða
Samherji.

Að þessari dagskrá lokinni er svo ekki með öllu óþekkt að viðtal sé tekið við gestina, þar sem þeir tjá sig um málefnið. Mér er spurn: Er á þessu mikill munur og því að kallast á við hamrabjörgin í Hljóðaklettum?

Sættir?

Það er ekki nýlunda að þessir manngerðu Hljóðaklettar séu kallaðir til vitnis um ágæti fiskveiðikerfisins. Hitt er nýrra að landinn sé atyrtur og honum sagt fjandans nær að fara að átta sig á hlutunum og “sættast”við stefnuna í sjávarútvegi.
Nýleg skoðanakönnun Gallup sýnir að stuðningur meðal þjóðarinnar við kerfið er snautlegur, eða um 18%. Hinn gríðarlegi meirihluti, sem ýmist “skilar auðu” eða er á móti getur aðeins skýrst af tvennu:
A) Hann er betur upplýstur en útlendingaherinn.
B) Hann er verr upplýstur en útlendingaherinn.
Er ekki rétt af Gallup að reyna að fiska eftir því hvort er?

Hvers konar sátt?

Þegar yfirvöld kalla eftir “sátt” um sjávarútvegsstefnuna væri ekki úr vegi að þau skilgreindu ögn hverju í raun þau eru að kalla eftir. Svo tekið sé það sem nærtækast er – uppbygging þorskstofnsins – fæ ég tæpast séð að hægt sé að sætta sig við þá staðreynd að eftir tuttugu og eins árs brölt er stofninn verr á sig kominn en í upphafi. Þrátt fyrir þetta hefur mönnum, nú síðast á fiskveiðiárinu 4-20-2003, verið haldið í þeirri von að “nú yrði aukið við þorskinn” og erlendis jafnvel sagt að innan seilingar sé jafnstöðuafli uppá 350 þúsund tonn.

Nýjasta innleggið í sjávarútvegsumræðuna er hvort rétt sé að hleypa erlendum fjárfestum í gullkistuna. Þótt ég leggi mig allan fram er mér fyrirmunað að greina sáttarhljóminn við þjóðina í þeim vangaveltum.

Sættir – Friður = Framfarir?

Ég hef þá tilfinningu sterkasta, þegar ég hlusta á þá sem kalla eftir “sáttum og friði” að viðkomandi séu fyrst og fremst þreyttir og leiðir á rökræðu og gagnrýni. Þeim finnist hún einatt ómerkilegt bull og taka hana jafnvel persónulega.
Staðreyndin er engu að síður sú að “friðlaust frelsi” er drifkraftur framfara og endursköpunar. Ég er ekki að vísa til þess að menn eigi að berast á banaspjótum, heldur hins að ólíkar skoðanir, hvort heldur á sviði vísinda eða stjórnmála, eiga allar rétt á sér. Átök á þeim sviðum eru merki heilbrigðis en ekki veikleika.

Þeir sem andmælt hafa stefnu stjórnvalda – ekki síst þeir sem hafa vogað sér að mynda sjálfstæðar skoðanir á aðferðum vísindanna — eru einnig orðnir langþreyttir. Á þeim er ekkert mark tekið og þeir meira og minna útilokaðir frá öllum mótandi störfum er varða breytingar og lagfæringar á lagaumhverfi og fleiru. Við þá er í besta falli sagt að “þetta sé nú ekki svo vitlaust hjá þér, en…..”.

Misheppnaðasta tilraunin til sátta

Misheppnaðasta tilraunin til að “ná sátt um sjávarútveginn” við þjóðina er lögfesting auðlindaskattsins. Baráttumönnum þessarar gjaldtöku hlýtur að svíða skeytingaleysi meirihlutans framangreinda, en hann virðist hafa steingleymt þessari forsendu til værari svefns. Þá finnst vart nokkur innan atvinnugreinarinnar sem fagnar gjörningnum. Eðli máls samkvæmt leggst hann á landsbyggðina sem fyrir þarf á öllu sínu að halda. Hitt er svo laukrétt, að það hljómar hreint frábærlega í eyrum erlendra umhverfissamtaka að Ísland hafi tekið upp “resource tax”. Sátt þar.

Íslenskur sjávarútvegur er, eðlis síns vegna, vettvangur átaka. Það sem stjórnvöld þurfa að sætta sig við er að ólíkar skoðanir og kenningar munu halda áfram að blómsta innan hans. Kúnstin sem þau þurfa að temja sér er virðing fyrir þessu umhverfi og draga það besta úr rökræðunni til framfara í atvinnugreininni.
Í leiðinni væri ekki úr vegi að leggja af sjálfshólið og framleiðslu á erlendum Hljóðaklettum. Þeir einu sönnu standa við gljúfur Jökulsár á Fjöllum og endurkast orðanna þar einungis til skemmtunar.

Arthur Bogason