Eins og fram hefur komið í fréttum birti Carrefour risafyrirtækið – m.a. í sölu matvara – augýsingu fyrir stuttu í nokkrum löndum Evrópu, nánar tiltekið á Ítalíu, Frakklandi, Spáni, Belgíu og Sviss, þar sem gerð er grein fyrir stuðningi fyrirtækisins við ábyrgar fiskveiðar.
Carrefour er ekkert venjulegt fyrirtæki: Alls rekur það 6132 verslanir um allan heim og eru stærstir á sínu sviði allra fyrirtækja. Alls er um að ræða 758 verslunarmiðstöðvar og í Evrópu einni er 461 slík. ‘Súpermarkaðirnir’ eru rétt innan við 1500 talsins.
Það hlýtur því að vekja mikla athygli þegar slíkur aðili tjáir sig um málefni sem snertir íslenskan þjóðarbúskap jafn gríðarlega og í þessu tilfelli.
Orðrétt er auglýsingin svona:
Ætli við þurfum að sökkva okkur í bækur til að finna þorsk í framtíðinni?
Carrefour fyrirtækin styðja af heilum hug ábyrgar fiskveiðar.
Carrefour hefur ákveðið að hrinda af stað áþreifanlegum aðgerðum til að vernda þorskinn, þá fisktegund sem neytendur kunna hvað best að meta en þorskstofninn er jafnframt í mikilli hættu vegna ofveiða.
Ísland er til fyrirmyndar í að stýra veiðum á auðlindum sínum á haldgóðan hátt. Samherjar Carrefour fyrirtækjanna á Íslandi stunda einungis línuveiðar en sú aðferð virðir vistkerfi sjávar og kemur í veg fyrir ofnýtingu stofnsins.
Í Noregi hefur fiskeldi minnkað álag á villta þorskstofninn. Samherjar okkar í Noregi stunda þorskeldi í fjörðunum þar sem allir eldisþorskar eru komnir af villtum þorskum sem njóta náttúrulegrar fæðu. Fiskarnir fjölga sér því við bestu skilyrði.
Með því að stuðla að sjálfbærri nýtingu sjávarafurða taka Carrefour fyrirtækin þátt í verndun náttúruauðlinda.
Stöndum saman og verndum framtíðina.
Vafalaust fer þessi lestur misvel í landann og sannarlega eru settar fram alhæfingar á borð við að ‘þorskstofninn sé….í mikilli hættu vegna ofveiða’. Þessi fullyrðing segir þeim sem lítið vita um þessi mál að þorskstofninn sé aðeins einn í Atlantshafinu og að honum steðji mikil vá.
Hitt er mjög athyglisvert að fyrirtækið kemst að þeirri niðurstöðu að heppilegustu samherjar þeirra á Íslandi séu þeir sem stundi línuveiðar, því sú aðferð sé vistkerfinu hagstæð og ofnýti ekki stofninn.
M.ö.o. – línuveiðar séu líffræðileg stjórnun veiðanna.
Líffræðilega nefndin vill athuga að dregið sé úr línuveiðum!
Fyrir nokkrum dögum skilaði Nefnd um líffræðilega stjórnun fiskveiða, skipuð af sjávarútvegsráðherra, áfangaskýrslu um störf sín. Þar er að vonum ýmislegt að finna, en hér skal sérstaklega vakin athygli á einni málsgrein skýrslunnar, sem stingur heldur betur í stúf við þann skilning sem Carrefour fyrirtækið leggur í líffræðilega stjórnun fiskveiða.
Í tillögum nefndarinnar um áframhaldandi störf: Íslenski þorskstofninn er eftirfarandi að finna:
Að meta hvort hægt sé og hagkvæmt að breyta veiðimynstri þorskveiðiflotans þannig að dregið verði úr hlutfallslegu veiðiálagi á ungan hraðvaxta fisk, t.d. með stækkun möskva í botnvörpu, notkun stærri króka við línuveiðar, lokun helstu uppvaxtarsvæða þorsks fyrir öllum veiðum eða afnámi línuívilnunar. (leturbr. LS).
Væntanlega er hér verið að stíga fyrstu skrefin í átt til þess að afnema línuívilnun og augljóslega líta nefndarmenn svo á að slíkt fyrirkomulag hafi síður en svo eitthvað með líffræðilega fiskveiðistjórnun að gera.
Annars staðar í skýrslunni segir hins vegar að einn af óvissuþáttum er tengjast nýtingu lifandi auðlinda á miðunum umhverfis Ísland eru bein og óbein áhrif veiðarfæra á nytjastofna….. Þetta er síðan endurtekið í ýmsum útfærslum. Engu að síður telja nefndarmennirnir sig þess umkomna að ráðast sérstaklega gegn línuveiðunum.
Ætli sé ekki nær að stjórnvöld hafi það tromp á hendi í samskiptum sínum við erlenda aðila að í fiskveiðilöggjöfinni séu ákvæði sem hygli línuveiðunum og stuðli þannig að vistvænum veiðum – sem hljóta að falla beint undir líffræðilega stjórnun fiskveiða.
Í nefndinni sitja:
Tryggvi Þór Herbertsson, Árni Bjarnason, Björn Æ. Steinarsson, Elínbjörg Magnúsdóttir, Guðrún Marteinsdóttir, Kristján Þórarinsson, Oddur Sæmundsson, Sjöfn Sigurgísladóttir og Tumi Tómasson.
Skýrsluna má finna á vef Fiskistofu undir fyrirsögninni Ný aflaregla, fréttatilkynning.