Það er óhætt að segja að ekki séu allir á eitt sáttir um dragnótamálin, eins og skýrt hefur komið fram hér á vef LS sem og víðar.
Einn ágætur áhugamaður um þessa umræðu kom teikningunni sem fylgir þessari frétt til skrifstofunnar ásamt upplýsingum sem telja verður mjög áreiðanlegar um það sem teikningin á að sýna. Hlutföllin á milli stærri ‘dragnótarinnar’ og þeirrar minni eiga að vera mjög nálægt því sem fram kemur í tölulegum upplýsingum.
Sú stærri
Stærri teikningin er af dragnót eins og algengt er að um 200 tonna bátar noti nú til dags. ‘Opnunin’, það er bilið frá fótreipi að höfuðlínu, er 10 faðmar og höfuðlínan, sem og fótreipið 25 faðma löng. Ferhyrningurinn sýnir þessa flatarstærð. 32 mm vírmanilla, allt að 1000 faðma löng er notuð til að draga veiðarfærið á u.þ.b. 2 – 3 mílna hraða. Í dag þekkist að notaður sé ‘grjóthoppari’ til að komst á harðan botn.
Sú minni
Minni teikningin er af dragnót eins og hún leit út um 1950. Opnunin var 2 faðmar og lengd höfuðlínu og fótreipis 10 faðmar. Þetta flatarmál er 12,5 sinnum minna en á þeirri nýju. Þetta veiðarfæri var dregið á 8 mm vír, 500 faðma löngum og aldrei farið vísvitandi inná harðan botn. Toghraðin var 1 – 2 mílur.
‘Skeifurnar’ á teikningunni eru fótreipin.