Grásleppuveiðimenn um land allt undirbúa sig nú að kappi undir komandi vertíð. Fella net, ganga frá merkingum og gera bátana klára, svo eitthvað sé nefnt. Eins og undanfarin ár eru miklar vangaveltur um aflabrögð á vertíðinni. Í símtölum á skrifstofuna hafa veiðimenn verið inntir eftir því, en svör eru yfirleitt á einn veg, menn treysta sér ekki til að spá fyrir um slíkt. Jafnvel þeir sem voru á gjöfulum svæðum á síðastliðinni vertíð þora ekki að segja neitt um komandi vertíð. Grásleppan sé óútreiknanleg, veiði eitt árið í toppi og því bjartsýni fyrir næstu vertíð, en á þeirri vertíð hafi nánast engin grásleppa verið. Þá er ekki öll sagan sögð því tvær brælur á besta tíma geti gert vonir veiðimanna að engu þegar upphafið hafi lofað góðu. Einnig hafa menn bent á að aðalveiðitíminn virðist einnig vera farinn að styttast og því geti veður spilað meira inn í heildarveiði en áður var.
Á eftir þessum vangaveltum er ekki úr vegi að birta kafla úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar um grásleppuna. Vitnað er til nýjustu skýrslunnar sem út kom í júní 2003. Þar segir:
„Niðurstöður stofnmælingarinnar og veiðidagbækur benda til að veiðistofn grásleppu 1996 hafi einungis verið um helmingur þess sem hann var þegar stofnmælingar hófust árið 1985. Aflabrögð á vertíðunum 1-20-1998 voru umfram spár sem byggðar voru á stofnmælingum sömu ár. Það gæti stafað af því að sókn minnkaði mikið á þessum vertíðum. Aflabrögð á vertíðinni 2002 voru hins vegar lítillega undir því sem spáin gerði ráð fyrir. Hrognkelsi voru ekki áberandi í stofnmælingunni í mars 2003 sem bendir til að afli á sóknareiningu á vertíðinni 2003 verði undir meðallagi. Vísitalan 2003 var undir meðaltali áranna 3-20-1985 en hún náði hámarki árið 2002.
Markaðsaðstæður ráða miklu um sókn í hrognkelsastofninn og skýrir það sveiflur í veiðum á síðustu árum. Hafrannsóknastofnunin telur að fara beri varlega við nýtingu grásleppustofnsins en leggur ekki fram tillögu um hámarksafla fyrir fiskveiðiárið 4-20-2003“