Viðskiptavinirnir vilja aðeins línufisk

Auðlindin – fréttaþáttur um sjávarútvegsmál – 15. desember 2003 fjallaði um mál málanna þá stundina – línuívilnun.

Rætt var við Birgi Kristinsson forstjóra Nýfisks í Sandgerði í tilefni þess að forstjóri Vinnslustöðvarinnar, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, hélt því fram að trollfiskur seldist á hærra verði en línufiskur á mörkuðum. Útfrá því alhæfði Sigurgeir Brynjar að það væri ávísun á minni verðmætasköpun að auka vægi línuveiða.

Birgir var fyrst spurður um verðin á mörkuðunum. Hann sagði: „ég var fyrir stuttu að taka það saman hjá okkur að síðustu 3 árin var meðalverðið á þorski sem keypt var á fiskmörkuðunum rétt tæpar 200 kr/kg. En þetta er þorskur sem keyptur er af línubátum sem róa héðan af SV-horninu“.

Aðspurður um hver væri skýringin á þessari niðurstöðu Sigurgeirs Brynjars sagðist hann ekki vita hvernig hann fengi þessa niðurstöðu. Birgir sagðist sitja á fiskmarkaðinum á hverjum degi og versla af markaðinum. Hann sagði trollfisk vera hverfandi á mörkuðum, mjög lítið af honum og þá sagðist hann ekki hafa séð að trollfiskur seldist á hærra verði, „þegar ég horfi á þetta er trollfiskur um 20% ódýrari en línufiskur“.

Stjórnandi Auðlindarinnar, sem að þessu sinni var Haraldur Bjarnason, spurði Birgi hvert fiskurinn færi frá þeim í Nýfiski og hverjar viðtökur kaupenda væru.

Birgir sagði þá vera að selja inn á Evrópu – Belgíu, Frakkland, Holland, Sviss. Birgir sagðist geta fullyrt hvar sem væri og sýnt fram á að þeir væru að fá þetta 20-25% hærra verð fyrir sínar afurðir heldur en þeir sem selja trollfiskinn.

Aðspurður hvort kaupendur settu einhver skilyrði svaraði Birgir því til að kaupendur færu fram á að þetta væri línufiskur, þeir vilja ekki trollfiskinn allavega ekki frá okkur.

Svo mörg voru þau orð og undirstrikar afburða gæði línufisksins sem skilar þjóðinni hærra útflutningsverðmæti heldur en trollfiskur.