Reykjanes – bæði lax og grásleppa fylgifiskar í flottroll

Aðalfundur Smábátafélagsins Reykjaness var haldinn á Vitanum í Sandgerði 1. október sl.  Í upphafi fundar greindi Halldór Ármannsson formaður félagsins frá starfseminni og helstu baráttumálum.  Hann harmaði að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefði ekki orðið við sáttatilboði Reykjaness um að lokun á mikilvægu hrygningarsvæði útaf Sandgerði og norður í Faxaflóa mundi gilda um öll veiðafæri.   En undanfarin ár hefur félagið beðið um að seinkun á opnun svæðisins þar sem hrygning er vart afstaðin og því mikilvægt að friða fyrir botntrolli fram til 1. júní í stað 1. maí.

IMG_3824.jpg

Meðal tillagna sem samþykktar voru á fundinum og sendar verða til aðalfundar LS eru:
  • Að við endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða, skuli byggt á niðurstöðu nefndar um endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni, svokallaðri samningaleið.
  • Að svæði vestur úr Sandgerði og suður af Grindavík verði lokað fyrir botntrolli allt árið.  
  • Að endurvigtun verði með þeim hætti að tryggt verði að hlutlausir aðilar komi að vigtuninni.
  • Að við strandveiðar sé eigandi um borð og eigi minnst 50% í bátnum.
  • Að strandveiðar á svæði D hefjist strax eftir hrygningastopp (22. apríl) og ljúki 22. ágúst. Skipting aflamagns: apríl / maí 700 tonn, júní 400 tonn, júlí 200 tonn, ágúst það sem þá stendur eftir.IMG_3828.jpg
  • Að haft verði óbreytt fyrirkomulag við grásleppuveiðar 2012, varðandi byrjunartíma og veiðidaga.  Auk þess sem afskiptum Hafró af stýringu veiðanna er hafnað.
  • Að hafna alfarið, aðild að ESB.
  • Aðalfundur Reykjaness fagnar auknum makrílveiðum en beinir því til aðalfundar LS að frá og með 1. janúar 2012 verði skip sem útbúin eru til flottrollsveiða á markríl, síld, loðnu eða kolmunna að vera útbúin bæði skiljum í flottrolli og um borð, sem flokkar meðafla frá uppsjávarafla.

Greinargerð: 

Flottrollið veiðir fleiri tegundir en þær sem á að veiða, og hafa bæði grásleppuveiðimenn og eins stangveiðimenn áhyggjur af auknum flottrollsveiðum, því þær hafa bein áhrif á stofna grásleppu og laxa sem eru í ætisleit á sama dýpi og sama tíma og makríllinn.