Á föstudegi er vel við hæfi að bregða út af vananum. Í morgun leit við á skrifstofu LS Sveinbjörn Jónsson, sá hinn sami og skrifaði greinina „Á valdi óttans og er hér á síðunni. Þeir sem til þekkja vita að Sveinbjörn er afbragðs vel skáldmæltur og til efni eftir hann í þykka bók, væri því að skipta.
Í morgun kippti hann blaðsnifsi úr vasa sínum, en um morguninn hafði hann hripað eftirfarandi á hann undir titlinum „Óskrifað blað:
Áður var hér óskrifað blað
ekkert að læra
svo voru málaðar myndir á það
sem meiða og særa
Kyrrðin sem forðum við kunnum svo vel
komin á enda
gapandi klerkar um gínandi Hel
nú geig okkur senda
Fáviskan áður sem fékk okkur ró
farin og búin
vígbúast óðum á veraldarsjó
vitið og trúin
Munu brátt sundrast mannanna verk
sem mistur í sól
glatast að eilífu glámhyggjan sterk
og gleðileg jól
Aftur þá verða mun óskrifað blað
eilífðin tæra
en nútíminn veit ekki nánar um það
hvort nokkur mun læra