Undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar á því undir högg að sækja
Blikur á lofti í íslenskum sjávarútvegi
Er yfirskrift greinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum í dag 10. nóvember.
Lækkun útflutningsverðmæta í kjölfar gengisfalls gjaldmiðla helstu viðskiptalanda okkar gagnvart krónunni er áhyggjuefni. Þá eigum við í erfiðleikum á mörkuðum sem skilað hafa miklum verðmætum á undanförnum árum. Þar ber að nefna Rússland og Nígeríu. Dæmi þar um er útflutningsverðmæti á makríl til Rússlands, árið 2014 var það 9,1 milljaður, 2015 2,7 milljarðar.
Til viðbótar þessari vá er allt útlit fyrir að hlýnandi sjór sé farinn að hafa áhrif á fiskistofna okkar, þeir farnir að hopa norðar og loðnan sem er mikilvægasta fæða þorsksins gengin af sporinu. Mælingar Hafrannsóknastofnunar í lok september og byrjun október á veiðistofni loðnu staðfestu þessa ógnvænlegu staðreynd. Stofnunin leggur til að engar loðnuveiðar verði leyfðar á vertíðinni 2016/2017 en frekari mælingar eru fyrirhugaðar í janúar.
Loðnuveiðar í uppnámi
Einnig mældist lítið af ungloðnu í leiðangri Hafrannsóknastofnunar nú í haust. Magn ungloðnu hefði þurft að mælast 50 milljarðar, sem eru viðmiðunarmörk aflareglunnar, en var aðeins 9 milljarðar. Ungloðna þessi myndar hrygningar- og veiðistofn fyrir vertíðina 2017/2018. Það eru því miklar líkur á að við taki annað ár sem engar veiðar á loðnu verði leyfðar. Gríðarlegt áhyggjuefni.
Áhyggjur af fæðu þorsksins
Lægð í loðnu kallar auk þess fram áhyggjur af fæðu þorsksins. Að hinn gríðarstóri þorskstofn hafi ekki í sig. Mælingar stofnunarinnar hafa bent til að eitthvað sé að gefa eftir í fæðu hans þar sem stofnunin er farin að gera ráð fyrir lægri meðalþyngdum hjá 5 ára fiski og upp úr. Landssamband smábátaeigenda kallaði ítrekað eftir skýringum á þyngdartapinu í kjölfar útgáfu skýrslu Hafrannsóknastofnunar „Nytjastofnar sjávar 2015/2016 og aflahorfur fiskveiðiárið 2016/2017 á sl. sumri. Ekki er ósennilegt að ætla að þarna spili loðnan stórt hlutverk.
Því miður virðist uppstytting með bláum himni ekki vera í augsýn. Með þessi slæmu tíðindi sem blasa við okkur gæti skollið á verkfall sjómanna nk. föstudag. Undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar á því undir högg að sækja um þessar mundir.
Lægra fiskverð
Á fyrstu 9 mánuðum ársins var meðalverð á fiskmörkuðum fyrir þorsk, ýsu, steinbít og ufsa mun lægra en á sama tíma í fyrra:
Jan. – okt. |
2016 |
2015 |
Breyting |
Þorskur |
281 kr/kg |
305 kr/kg |
-7,9% |
Ýsa |
291 kr/kg |
316 kr/kg |
-7,9% |
Steinbítur |
161 kr/kg |
207 kr/kg |
-22,2% |
Ufsi |
170 kr/kg |
203 kr/kg |
-16,2% |
Ljósið í myrkrinu
Þannig að lesendur fari nú ekki að trúa því að almyrkvi sé að leggjast yfir þá upplýsist það hér að útflutningur á ferskum þorski hefur gengið mjög vel á undanförnum árum. Ekkert lát er þar á þegar tölur þessa árs eru skoðaðar.
Tímabilið janúar til september í ár gaf okkur bæði hærra verð og meira magn heldur en fékkst á sama tímabili 2015. Verðmæti þorsksins jókst um 4,4 milljarða og magnið rétt um fjögur þúsund tonn. Útflutningsverðmæti á ferskum þorski var komið í 23,8 milljarða sem er aðeins 3,8 milljörðum lægra en hann gaf allt árið 2015.
Hér er um gríðarlega góðan árangur að ræða. Við höfum náð að fá meira fyrir þorskinn með því að framleiða meira af fersku samhliða að vinna markað fyrir hann. Langmest hefur verið flutt út til Frakklands – 47,5% af heildarmagninu. Franski markaðurinn virðist vera í sókn þar sem hlutdeildin hefur aukist frá í fyrra. Til marks um stærð og mikilvægi markaðarins er hann stærri en samanlagt magn þeirra þriggja landa sem næst eru í röðinni, þ.e. Bandaríkin, Bretland og Belgía.
Alls hefur ferskur þorskur verið fluttur út til 26 landa í ár á móti 24 í fyrra.
Verkfall vofir yfir
Verkfall við þessar aðstæður, ef af verður, mun hafa gríðarleg áhrif. Útflutningur á ferskum fiski nánast stöðvast og óvíst hverjar afleiðingar verða. Þeir einu sem ekki eru á leið í verkfall eru sjómenn sem starfa hjá smábátaeigendum sem eru félagsmenn í LS.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.