Makrílveiðum smábáta á árinu 2017 er lokið. Alls skilaði vertíðin 4.800 tonnum sem er langtum minna en vonir stóðu til.
Fjórir bátar veiddu meira en 200 tonn. Fjóla GK var aflahæst með 280 tonn, Brynja SH með 274 tonn, Andey GK 263 tonn og Ísak AK 213 tonn.
Makrílafli færabáta nú var rétt um helmingur þess sem þeir veiddu á vertíðinni 2016, sem endaði í 8.617 tonnum. Fjöldi báta sem skráður er með makrílafla er svipaður nú og í fyrra – 54 á móti 52 árið 2016.
LS hefur gagnrýnt stjórn á makrílveiði smábáta. Reglugerð sem sett var 2014 og endurútgefin árlega hefur valdið skaða. Hún kveður á um kvótasetningu sem hamlað hefur famþróun, komið í veg fyrir nýliðun og leit af nýjum veiðisvæðum, svo eitthvað sé nefnt. Það er krafa LS að reglugerðin verði numin úr gildi og hlutur smábáta í útgefnum heildarafla verði 16%.
Stjórn LS ályktaði um málið þann 7. apríl og sendi ráðherra.