Sjómannasambandið vill afnema krókaaflamark

Virðingarleysi fyrir markmiðum
Eitt af verkefnum starfshóps sem greint var frá í síðustu viku var að skoða reglur um stærðarmörk fiskiskipa.  Þar eru m.a. undir lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands þar sem allar veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót eru bannaðar.  Veiðar með þeim búnaði eru aðeins heimilaðar út frá stærðarmörkum og togkrafti (aflvísir) skipa.  Hversu nálægt landi megi beita togveiðafærum.  
Skemmst er frá því að segja að hópurinn leggur til að allar núgildandi stærðar og vélarafls takmarkanir verði felldar úr gildi.  Þar er tekið undir álit Hafrannsóknastofnunar um að engin fiskifræðileg rök mæli með því að takmarka veiðar útfrá stærð skipa og vélarafli. 
Það er mat LS að hér sé lítil virðing borin fyrir markmiðum laga um stjórn fiskveiða, svo virðist sem hópurinn hafi litið framhjá þeim þegar hann skilaði af sér.    
Tillaga SSÍ

LS sendi inn umsögn til hópsins í mars 2017.  Nýverið barst LS til umsagnar frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu tillaga starfshópsins.  Þar var greint frá umsögnum annarra hagsmunasamtaka.  Burtséð frá tillögu Hafrannsóknastofnunar kemur umsögn Sjómannasambands Íslands um stærðarmörk krókaaflamarksbáta á óvart.  Sambandið leggur til að úr því krókaaflamark er ekki lengur einskorðað við smábáta þá skuli það sameinað aflamarki.  
Tillagan er eftirfarandi:
„Árið 2013 var lögum um stjórn fiskveiða breytt þannig að nú geta skip sem eru styttri en 15 m og undir 30 BT verið á krókaaflamarki.  Þar sem lítill munur er á krókaaflamarki annars vegar og almennu aflamarki hins vegar auk þess sem krókaaflamarkið er ekki lengur bundið við smábáta telur Sjómannasamband Íslands að breyta ætti krókaaflamarkinu í almenn aflamark.
Ekki er vitað hvað SSÍ gengur til með þessari tillögu, nema að vera skildi að þeir gætu landað kjarasamningi þar sem sjómenn á bátum 12 – 15 metrar féllu þá sjálfkrafa inn í samning þeirra við SFS.  LS hefur hins vegar gert þá kröfu að félagsmenn sínir verði allir undir kjarasamningi sem félagið hefur samið um við samtök sjómanna.