Guðmundur Halldórsson – minningarorð

Útför Guðmundar Halldórssonar fór fram í gær, laugardagnn 9. júlí.  Í Morgunblaðinu birtist eftirfarandi minningargrein um Guðmund.
Guðmundur Halldórsson mikil kempa og baráttujaxl er fallinn frá.  Honum kynntist ég þegar hann var að róa á bát sínum Tóta ÍS í þorskaflahámarki – eitt af veiðikerfum krókabáta á tíunda áratug síðustu aldar.  Kynni okkar áttu eftir að verða afarfarsæl og hrinda af stað breytingum til góðs fyrir smábátaeigendur.
IMG_4096 copy.png
Guðmundur var maður hinna dreifðu og viðkvæmu byggða þar sem hjarta hans stóð næst sinni heimabyggð, Bolungarvík.  Hann vildi að þær næðu vopnum sínum á nýjan leik.  
Eftir að aukategundir krókabáta voru kvótasettar voru góð ráð dýr.  Þjarmað var að  smábátaútgerðinni og sem formaður Eldingar félagi smábáteigenda í Ísafjarðarsýslum var slíkt ekki í boði.   Hann hvatti félaga sína til baráttu og kom vel nestaður með sterkt bakland á landsfund Sjálfstæðisflokksins í janúar 2003.  Ég fann það strax að Guðmundur var í banastuði og þegar sá gallinn var á honum voru stórar hindranir barnaleikur í hans augum. Við skeggræddum málið fram og til baka og veltum fyrir okkur hinum og þessum þáttum sem komið gætu upp á landsfundinum. Þó ég hafi ekki verið á landsfundinum fékk ég stöðugar fréttir af gangi mála og óneitanlega var spenningurinn mikill þegar ég hlustaði á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Sá gamli – eldhuginn að vestan – formaður Eldingar Guðmundur Halldórsson stóð uppi sem sigurvegari. Meira að segja engar breytingar gerðar á tillögunni, hún fór orðrétt í gegn ásamt greinargerð. Segja má að á þessum tímapunkti hafi verið búið að samþykkja að koma línuívilnun á.  
Alþingiskosningarnar, málefnasamningur samþykktur og línuívilnun að sjálfsögðu þar inni.
Þegar Guðmundur tók eftir að stjórnvöld drógu lappirnar á að koma línuívilnun strax í framkvæmd gekkst hann fyrir stórfundi í Íþróttahúsinu á Ísafirði 14. september 2003.
Mér er það afar minnistætt þegar Guðmundur bað mig að kíkja til sín og aðstoða hann við að undirbúa fundinn.  Ég dvaldist á heimili hans og Dæju í nokkra daga.  Þar kynntist ég Guðmundi fyrir alvöru.  Hlustaði á frásagnir hans frá liðnum tímum sem margar voru með ólíkindum.  Hversu sjósóknin var erfið hér áður fyrr, mannskaðar tíðir og lífsbaráttan hörð.  Jafnframt gamansögur af mönnum og málefnum með háværum og innilegum hlátri.
Við undirbjuggum fundinn af kostgæfni og litum til allra þátta til að hafa fullkomna stjórn á fundinum.  Fréttamaður valinn sem fundarstjóri, spurningar samdar, spyrjendur valdir, ályktun samin.  Á fundardegi klifraði minn maður upp á þak inngangsins og kom fyrir kjörorðum fundarins „Orð skulu standa.  Allir fundargestir skildu gangast við þeim orðum við inngöngu.
Nú er komið að leiðarlokum hjá mínum kæra vini.  Heyrði síðast í honum fyrir réttum mánuði.  Þá eldhress að vanda, hláturinn, glettnin og allt til staðar, þegar við ræddum um smábátaútgerðina og hversu vel strandveiðar hefðu reynst byggðunum.   
Aðstandendum votta ég samúðar.
Örn Pálsson