Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis hefur samþykkt að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu). Verði frumvarpið samþykkt sem lög öðlast þau gildi 1. september 2025.
Í greinargerð frumvarpsins segir m.a.
„Markmið frumvarps þessa er að færa stjórn veiða á grásleppu í fyrra horf með vísan til þess að sú breyting sem gerð var með lögum nr. 102/2024 þjónar hvorki hagsmunum atvinnugreinarinnar né nytjastofnsins og þar með ekki hagsmunum almennings. Með frumvarpinu eru því lagðar til annars vegar breytingar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og hins vegar lögum um stjórn fiskveiða þess efnis að þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 102/2024 gangi til baka.