Drangey – byggðakvóti einungis til dagróðrabáta

Aðalfundur Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar var haldinn sunnudaginn 11. september.  
Góð mæting var á fundinn og fjölmörg málefni tekin til umræðu.  
Meðal þeirra var ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.   Fundarmenn voru á einu máli um að „vísindalegar forsendur veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar, t.d. í þorski, grásleppu  og fleiri tegundum hafa engan veginn staðist og skýringar stofnunarinnar ótrúverðugar og án viðunandi rökstuðnings, eins og segir í ályktun frá fundinum.  
Magnúsi Jónssyni formanni Drangeyjar var þakkað sérstaklega fyrir greinar sem hann hefur ritað um málefnið.   „Furðuleg fiskveiðiráðgjöf.    „Vantraust á fiskveiðiráðgjöf
Drangey copy 5.jpg
Þung umræða var um byggðakvóta. Gagnrýni kom á núverandi fyrirkomulag og nauðsynlegt að gera breytingar í þá veru að úthluta heimildunum til dagróðrabáta minni en 30 brt.  Þá verði 10 tonn eyrnamerkt til þeirra útgerða sem átt hafa heimilisfesti í byggðarlaginu þrjú sl. ár.
Stjórn Drangeyjar:

Magnús Jónsson formaður, Kópavogi

Hjálmar H. Hjálmarsson varaformaður, Hofsósi
Ásta Ólöf Jónsdóttir gjaldkeri, Sauðárkróki
Þorvaldur Steingrímsson ritari, Sauðárkróki

Sigurjón Þórðarson meðstjórnandi, Sauðárkróki
Ályktanir frá Drangey til aðalfundar LS
1. Aðalfundur Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar ítrekar með vísan til fyrri samþykkta félagsins og sveitarstjórnar Skagafjarðar kröfu um að dragnótaveiðar á Skagafirði verði nú þegar takmarkaðar í samræmi við fyrra fyrirkomulag veiðanna á firðinum, þ.e. að svæðinu innan línu úr Ásnefi í vestri í Þórðarhöfða/Kögur í austri verði lokað fyrir veiðum með dragnót.
2. Aðalfundur Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar mótmælir harðlega stöðvun strandveiða 21. júlí 2022. Skorar félagið á stjórnvöld að tryggja með lögum að þessar veiðar verði undanbragðalaust leyfðar í 12 veiðidaga á mánuði í fjóra valkvæða mánuði á tímabilinu frá apríl til september. 
3. Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar leggur til að byggðakvóta verði einungis úthlutað til dagróðrabáta sem eru minni en 30 brt. Þá verði allt að 10 tonn eyrnamerkt til þeirra útgerða sem átt hafa heimilisfesti í byggðarlaginu a.m.k. þrjú síðastliðin ár. Loks verði aldrei meira en 20% af byggðakvóta á Sauðárkróki úthlutað til hvers útgerðarfyrirtækis.
4. Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar telur ljóst að vísindalegar forsendur veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar, t.d. í þorski, grásleppu  og fleiri tegundum hafa engan veginn staðist og skýringar stofnunarinnar ótrúverðugar og án viðunandi rökstuðnings. Skorar félagið á Alþingi að beita sér sem fyrir því að úttekt verði gerð á stofnstærðarmati og veiðiráðgjöf stofnunarinnar. 
5. Aðalfundur Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar skorar á stjórnvöld að endurskoða heimildir til veiða með dragnót upp í fjörur víða um land. Þá mótmælir fundurinn öllum hugmyndum um auknar togveiðar nær landi en nú er.
6. Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélag Skagafjarðar krefst þess að flotvörpuveiðum á Íslandsmiðum verði tafarlaust hætt enda kemur mikið af grásleppuseiðum og öðrum fisktegundum í veiðarfærið sem meðafli.
7. Með vísan til minni losunar kolefnis, leggur aðalfundur Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar til að heimilt verði að veiða allt að 1.548 kg af ósl. þorski í einni strandveiðiferð enda fari hún ekki yfir 28 klst. og teljist þá tveir veiðidagar.