Sigfús Jóhannesson í Grímsey: „Aldrei séð annað eins

Sigfús Jóhannesson, útgerðarmaður í Grímsey hefur orðið: 

„Ég hef verið hérna í Grímsey síðan 1972, og ég hef aldrei séð annað eins. Það var netabátur að landa um 15 tonnum og meðalvigtin var 12 kíló. Margir fiskar 20 kíló og þyngri. Það er óhemja af þorski á stóru svæði hér við Grímsey og litlu virðist skipta hvar trossurnar eru lagðar. Og stærðin er eitthvað sem við eigum ekki að venjast á þessum slóðum. Þá er hann svo feitur að hann er bókstaflega hnöttóttur af spiki. 
Það er ekki bara mikið af þorski á svæðinu að mati Sigfúsar. Þorskurinn er feitur og lifrarmikill. Sigfús heldur áfram:
Þeir tóku mælingu á þessu hérna í fiskverkuninni, slægðu 20 tonn og bara lifrin var 1860 kíló eða 9,3%. Þorskurinn er fullur af loðnu og hún er full af hrognum. Ég skrapp frammfyrir Eyju um daginn og renndi færum í loðnukökkinn. Í tveimur hífum húkkuðust 18 stórar loðnur og ég kreisti slatta af hrognum á bakka úr kvikindunum. Það er erfitt að ímynda sér hversu þétt hún stendur þegar svona margar húkkast og það á færakróka númer 12.
Sigfús er allt annað en hress með hvað ráðamenn eyða tíma sínum í: 
„Það grátlegasta við þetta allt saman er að horfa upp á allan þennan fisk í dauðafæri og mega ekki snerta við honum. Þær eru ómældar upphæðirnar sem er verið að hafa af útgerðinni og þjóðarbúinu með þessu háttarlagi.   Á sama tíma fylgist maður með því að ráðamenn eru ekkert að gera í því að auka hið snarasta við aflaheimildir. Tíma sínum telja þeir greinilega betur varið í að þjarka um það hvort ekki eigi að taka aflaheimildirnar af mönnum til að geta leigt þeim þær til baka.