Vandræðaástand vegna skorts á leigukvóta – framsal veiðiheimilda verði frjálst


Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 11. nóvember.


Á nýafstöðnum
aðalfundi LS gerði undirritaður framsal veiðiheimilda að umtalsefni.  Aðalhvati þess er breytingar sem gerðar
voru á reglum um framsal, vöntun á leigukvóta og sá viðsnúningur sem orðið
hefur á afstöðu LÍÚ er varðar málefnið. 

 

Hornsteinn kerfisins

Engum blöðum er um
það að fletta að einn af hornsteinum aflamarkskerfisins er frjálst framsal
veiðiheimilda. Margir, þar á meðal undirritaður, telja í raun að kerfið standi
og falli með þessu ákvæði. Það skýtur því skökku við að í áliti meirihluta
starfshóps um endurskoðun fiskveiðistjórnunarlaganna sé lagt til að byggt skuli
áfram á aflamarkskerfi, en samtímis að framsal skuli takmarkað.
 

Þegar er farið að
gæta áhrifa af breyttum framsalsreglum. Fjöldi báta sem hafa veiðiheimildir í
þorski er stopp þar sem ýsa er ekki fáanleg til leigu.  Þessir aðilar hafa byggt upp útgerð
sína á þennan hátt og því um verulegt áfall að ræða bæði hvað varðar áframhaldandi
útgerð og þau störf sem hún hefur skapað. 

 

Breytt ýsugengd

Ástæður þess að
þessir bátar hafa ekki hlutdeild í ýsu eru margvíslegar, m.a. sú að á
viðmiðunarárum var ýsa ekki á veiðislóðinni og þar af leiðandi fengu viðkomandi
ekki kvóta í ýsu. Þegar ýsa fór að veiðast á þeirra miðum var næga ýsu að fá
til leigu, jafnvel meira framboð en eftirspurn miðað við verðið sem hún var
leigð á. Menn voru jafnvel í áskrift hjá sömu útgerðinni ár eftir ár. Það var
því ekki áhugi fyrir kaupum á varanlegum heimildum, auk þess sem ekki var gert
ráð fyrir að ýsa yrði viðvarandi á svæðinu.
 

Vandi þessara aðila
er gríðarlegur, svo mikill að þeir eru farnir að greiða leiguverð upp undir það
verð sem þeir fá fyrir ýsuaflann. 
Það neyðast þeir til að gera svo mögulegt sé fyrir þá að veiða þann
þorsk sem þeim er úthlutað. Þannig reyna þeir að halda útgerðinni
gangandi. 

 

Ástæður leigukvótaskorts

Algengar ástæður sem
gefnar eru fyrir því að ekkert framboð er af ýsu eru:

·      Gríðarleg skerðing veiðiheimilda í ýsu á stuttum tíma.

·      Væntingar um að geta veitt þær heimildir sem viðkomandi
hefur fengið úthlutað.

·      Ótti við að fyrirhugaðar breytingar á lögum um stjórn
fiskveiða taki mið af því hvernig einstaka útgerðir hafi nýtt veiðiheimildir
sem þeim hefur verið úthlutað.

·      Hræðsla við almenningsálitið – almenningur fordæmir
kvótaleigu – kallar það kvótabrask.

Auk þessa bæta
þessir aðilar við sem skýringu að allt hafi breyst á markaðnum þegar
leigumiðlun fiskmarkaðanna hætti starfsemi. Eftir það væri aðeins einn aðili að
miðla kvóta. Viðmælendur segjast gjarnan hafa hringt í útgerðir allt í kringum
landið, en fengið stöðluð svör frá þeim sem vildu leigja um að kvótaleiga LÍÚ
sæi um þessi mál fyrir þá.  Símtöl
til þeirrar kvótaleigu hafa lítinn árangur borið.

 

Milljarðar tapast

Á nýliðnu
fiskveiðiári töpuðust milljarðar vegna þessara breyttu aðstæðna.  Ráðherrann hljóp undir bagga á síðustu
dögum fiskveiðiársins og jók geymsluréttinn um 50% þannig að sáralítið brann
inni. Það kom þó ekki í veg fyrir að veiðiheimildir upp á nokkra milljarða voru
ekki nýttar til verðmæta fyrir þjóðina. Fóru annað hvort í tegundatilfærslu eða
voru fluttar yfir á þetta fiskveiðiár.  

Tilfinnanleg vöntun
er á línuveiddri ýsu á mörkuðunum og verði slíkt viðvarandi mun það leiða til
enn meira tjóns en orðið er. Það má því ekki bíða deginum lengur að greiða
fyrir viðskiptum með leigukvóta.

 

Alvarleg staða

Það er skoðun mín að
hér sé að myndast mjög alvarleg staða þar sem handhafar veiðiréttarins eru
orsakavaldar. 

Stórútgerðin hefur
ákveðið að taka undir með sjómannaforystunni og óska eftir að framsal
veiðiheimilda verði takmarkað enn frekar.

Auk þessa vanda sem
hér hefur verið skýrt frá mun hagkvæmni aflamarkskerfisins minnka svo sem
möguleikar að hámarka verð og fjölbreytni í útgerðarflórunni. En það verður að
segjast eins og er að nánast eina nýliðunin sem orðið hefur í kvótakerfinu á
undanförnum árum hefur verið í gegnum leigukvótann vegna þess að framsal hefur
nánast verið óheft.

 

Hinir stóru verða stærri

Spurt er: Hvers
vegna eru menn að rugga þessum báti? Hvað er það sem veldur kúvendingu LÍÚ í
þessu máli? Hvaða afleiðingar hefur það ef lokast á allt framsal með
veiðiheimildir?

Læt nægja að svara
því síðast talda.Útgerðaraðilum fækkar og veiðiheimildir flytjast til þeirra
sem stærstir eru. Á skemmri tíma en menn órar fyrir gætu því örfáir aðilar
verið komnir með allan veiðiréttinn. Er það kannski ætlunin?

 

Ég skora á ráðherra
að bregðast strax við þessari þróun, leggja fram frumvarp sem dregur úr óvissu
til framtíðar, afnema framsalstakmarkanir og færa veiðiskyldu til fyrra horfs.

 

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands
smábátaeigenda.



 

,

Vangaveltur um rúmmál hlutanna”


Uppskriftir